Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hótar nýjum tollum á kínverskan innflutning til Bandaríkjanna að virði 300 milljarða dollara. Trump segir tollana munu taka gildi í næsta mánuði. Forsetinn tilkynnti um hina nýju tolla í kjölfar misheppnaðra samningaviðræðna bandarískra stjórnvalda við kínversk stjórnvöld.
Hinir nýju tollar myndu koma ofan á hinar 25 prósenta álögur á kínverskan innflutning sem nú þegar eru í gildi. Þær álögur hafa orðið til þess að næstum allar vörur innfluttar frá Kína hafa aukaálögur. Trump sagði blaðamönnum í gær að hann myndi halda áfram að leggja álögur á kínverskar vörur þar til að samningur náist. Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, sagði í kjölfarið að það að leggja toll á kínverskar vörur myndi alls ekki leysa úr deilu ríkjanna.
Our representatives have just returned from China where they had constructive talks having to do with a future Trade Deal. We thought we had a deal with China three months ago, but sadly, China decided to re-negotiate the deal prior to signing. More recently, China agreed to...
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 1, 2019
Í kjölfar færslu Trumps á Twitter, þar sem hann skýrði frá áætlun sinni að koma á enn hærri tollum á kínverskar vörur, féllu ýmis hlutabréf í verði sem og olíuverð sem má lesa nánar um hér og hér.
Kínversk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt bandarísk stjórnvöld í kjölfar hótunar Trumps. Kínversk stjórnvöld geta ekki annað en komið á mótvægisaðgerðum verði af aðgerðum Trumps, segir á vef Xinhua, kínversks ríkisfjölmiðils. Jafnframt segir í fréttinni að tollarnir myndu hafa neikvæð áhrif á heimshagkerfið og að kínversk stjórnvöld vilji ekki fara í viðskiptastríð en þau óttist það heldur ekki.
Tveggja daga samningaviðræður hafa átt sér stað í Shanghai á milli kínverskra og bandarískra yfirvalda. Vegna þess hversu illa tókst að komast að samkomulagi hefur verið efnt til annarra viðræðna í Washington í næsta mánuði.
Í júní sendu hundruð viðskiptamanna talsmenn sína á fund Trumps til þess að lýsa yfir áhyggjum sínum á þróun mála og mótmæla auknum tollum á innfluttum kínverskum vörum.