Icelandair flutti tæplega 251 þúsund farþegar til Íslands í júlímánuði. Það er ríflega 60 þúsund fleiri en félagið flutti til landsins í sama mánuði í fyrra og farþegum sem Icelandair flaug til Íslands fjölgaði því um 32 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar um nýjar flutningstölur Icelandair. WOW air, helsti samkeppnisaðili Icelandair, fór í þrot í mars og því hefur dregið verulega úr samkeppni á flugi til og frá Íslandi frá því í fyrra.
Þar segir einnig að heildarfjöldi farþega hjá Icelandair í mánuðinum hafi verið 564 þúsund og hafi aukist um níu prósent milli ára. Sætanýting dróst hins vegar saman, var 82,9 prósent en hafði verið 85,3 prósent í júlí í fyrra. Ástæðan er sögð vera leiðakerfisbreytingar sem gerðar voru vegna kyrrsetningar MAX véla félagsins skömmu fyrir ferðatímann sem höfðu talsverð neikvæð áhrif á sætanýtingu í júlí.
Farþegar Air Iceland Connect, sem flýgur innanlands á Íslandi, voru um 28 þúsund í júlí og fækkaði um tíu prósent frá því í fyrra.
Slakt uppgjör á fyrri helmingi árs
Icelandair Group tapaði alls 89,4 milljónum dala, um ellefu milljörðum króna, á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta kom fram í hálfsársuppgjöri félagsins sem birt var í síðustu viku. Þar sagði að heildartekjur þess hefðu aukist, launakostnaður lækkað en eldsneytiskostnaður og kostnaður vegna flugvélaleigu hækkað.
Ástæðan fyrir slöku uppfjöri var fyrst og síðast vegna kyrrsetningar á MAX-vélum Icelandair, en félagið hefur þegar fengið sex slíkar afhentar og átti von á þremur til viðbótar. Vélarnar voru kyrrsettar 12. mars en áætlanir Icelandair gera ráð fyrir því að þær komist aftur í gagnið í nóvember, þótt Boeing, framleiðandi vélanna, hafi ekkert gefið út um það enn hvenær búast megi við því að vélarnar geti flogið á ný. Eiginfjárhlutfall Icelandair lækkaði úr 28 í 25 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins þrátt fyrir hlutafjáraukningu upp á 5,6 milljarða króna á tímabilinu. Handbært fé félagsins lækkaði um 15,3 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins, úr um 36,9 milljörðum króna í um 21,5 milljarð króna.
Icelandair hyggst krefjast 17 milljarða króna í skaðabætur frá Boeing vegna kyrrsetningar á MAX-vélunum.