Hluthafafundur fer fram í Arion banka næstkomandi föstudag, þann 9. ágúst. Þar verður meðal annars kosið um tvo nýja stjórnarmenn sem eiga að starfa fram að næsta aðalfundi bankans, sem fram mun fara vorið 2020.
Þrír hafa boðið sig fram til setu í stjórninni. Þeir eru Gunnar Sturluson, lögmaður og einn eiganda Logos , Paul Richard Horner, starfsmaður Ulster Bank Ireland og Már Wolfgang Mixa hagfræðingur.
Tilnefningarnefnd Arion banka hefur farið yfir framboð þeirra og í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að hún leggi til að Gunnar Sturluson og Paul Richard Horner verði kjörnir stjórnarmenn.
Arion banki mun kynna afkomu annars ársfjórðungs ársins sídðegis á fimmtudag, daginn fyrir hluthafafundinn. Það verður fyrsta birting uppgjörs eftir að Benedikt Gíslason var ráðinn bankastjóri bankans fyrr á þessu ári.