Arion banki færði niður eignir um 2,1 milljarð króna á fyrri helmingi ársins 2019. Sú niðurfærsla var, samkvæmt fjárfestakynningu vegna nýjasta uppgjörs bankans, aðallega vegna WOW air og TravelCo, félags sem hýsir leifarnar af starfsemi Primera Air, en bæði félögin, sem voru í miklum viðskiptum við Arion banka, eru farin í þrot.
Arion banki eignaðist öll hlutabréf í TravelCo í júní síðastliðnum. Fyrirtækið var stofnað í kjölfar falls Primera Air og rekur ferðaskrifstofur á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Arion ætlar sér að reyna að selja það sem allra fyrst. Starfsemi TravelCo á Íslandi hefur farið fram undir merkjum ferðaskrifstofanna Heimsferða og Terra Nova.
Í fjárfestakynningunni segir að þótt ferðamönnum muni fækka um tæplega fimmtung frá síðasta ári þá hafi eyðsla á hvern ferðamann aukist umtalsvert frá gjaldþroti WOW air í lok mars. Bankinn telur nýjustu tölur úr ferðaþjónustunni afar jákvæðar fyrir geirann og efnahagskerfið í heild. Íslenskt efnahagslíf sé vel í stakk búið til að takast á við þá lendingu sem þú á sér stað í ljósi þess að eignarstaða gagnvart útlöndum er jákvæð og skuldastaða kerfisins í heild er sögulega lá, jafn hjá opinbera geiranum og einkageiranum.
Arðsemi eiginfjár slök
Arion banki hagnaðist um 2,1 milljarð króna á öðrum ársfjórðungi ársins 2019. Það er umtalsvert minni hagnaður en á sama tímabili í fyrra þegar hann var 3,1 milljarður króna. Á fyrstu sex mánuðum ársins nemur hagnaður bankans alls 3,1 milljarði króna en var fimm milljarðar króna á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í hálfsársuppgjöri Arion banka sem birt var á fimmtudag.
Eigið fé bankans var 195 milljarðar króna og eignir þess 1.233 milljarðar króna í lok ársfjórðungsins. Eiginfjárhlutfallið var því 22,8 prósent í lok júní.
Markmiðið tíu prósent arðsemi
Markmið Arion banka er að arðsemi eigin fjár verði tíu prósent. Til að ná því markmiði hefur bankinn verið að breyta fjármögnun sinni með umfangsmikilli útgáfu víkjandi skuldabréfa, lækkun hlutafjár með endurkaupum á bréfum hluthafa, útgreiðslu arðs, aukinni áherslu á stafræna þjónustu og lækkun á rekstrarkostnaði, en markmið bankans er að kostnaðarhlutfall bankans verði undir 50 prósent í nánustu framtíð. Það er nú 54,2 prósent.
Þá vill bankinn selja ýmsar eignir. Á meðal þeirra eru Valitor, Stakksberg, sem heldur á kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík, og áðurnefnt TravelCo.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði í tilkynningu til Kauphallar að afkoman á ársfjórðungnum hafi ekki verið nógu góð.