„Þvílík og önnur eins skítarök hef ég sjaldan heyrt áður. Já, mér finnst orðið skítur viðeigandi við þetta tilefni.“ Þetta segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í stöðuuppfærslu á Facebook í dag. Vísar hann þarna í orð Sigríðar Á. Andersen, þingmanns Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi dómsmálaráðherra, þar sem hún sagði að það kæmi sér ekki á óvart að Samfylkingin tæki afstöðu gegn Íslandi.
„Háttvirtur formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis notar orðið „skítur“ um það að íslenska ríkið taki til varna þegar að hagsmunum Íslands og íslenskrar stjórnskipunar er sótt í gegnum erlendar stofnanir. Það kemur svo sem ekki á óvart að Samfylkingin taki afstöðu gegn Íslandi eins og hún gerði í Icesave málinu og með umsókninni og aðlöguninni að Evrópusambandinu á sínum tíma. En þetta orðbragð lýsir alveg nýjum metnaði gegn hagsmunum Ísland,“ skrifaði hún á Facebook.
Björn Leví segir aftur á móti að það hafi ekki verið Ísland sem hafi verið í vörn út af Landsréttarmálinu. „Það er vörn fyrir fyrrverandi dómsmálaráðherra sem fótum tróð upplýsingaskyldu sína gagnvart Alþingi þegar gögn um ráðleggingar sérfræðinga ráðuneytisins voru hunsuð og þeim var ekki deilt með þinginu og sagt að engin andmæli væru við þeim málatilbúnaði sem fyrrverandi dómsmálaráðherra fór fram með. Sigríður Á. Andersen er ekki Ísland, hún tók þessa ákvörðun út frá sinni persónulegu þekkingu og hefur því ekkert með að draga einhverja þjóðernishyggju inn í þetta mál. Það er ömurleg sjálfsvörn að spila málið upp þannig,“ skrifar Björn Leví.
Þvílík og önnur eins skítarök hef ég sjaldan heyrt áður. Já, mér finnst orðið skítur viðeigandi við þetta tilefni. Það...
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Friday, August 9, 2019
Í færslu sinni var Sigríður að tala um Helgu Völu Helgadóttur, þingmann Samfylkingarinnar og formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, vegna svarleysis núverandi dómsmálaráðherra, Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, vegna fyrirspurnar hennar um kostnað hins opinbera af Landsréttarmálinu svokallaða.
Helga Vala sagði að ráðherrann hefði ekki svarað margítrekuðum fyrirspurnum sínum um málið og velti því fyrir sér hvort það gæti ekki verið að henni væri ekki svarað „því það er verið að bíða eftir nýjum dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokks og sú sem þar situr vill bara alls ekki fá þennan skít á sig?“
Hún uppfærði færslu sína seinna um daginn þar sem hún sagði að núverandi dómsmálaráðherra hefði haft samband en svarinu var skilað til þingsins í júlí síðastliðnum. Helga Vala sagðist ekki hafa verið upplýst um það.