Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, segir ríka ástæðu fyrir því að segja Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Braga Sveinsson, nú þingmenn Miðflokksins, hafa skipt um skoðun í orkupakkamálinu. Sigmundur Davíð sé að beita blekkingu eða í besta falli útúrsnúningum þegar hann segir þá ekki hafa innleitt pakkann. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu Bjarna á Facebook í dag.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hélt fund með flokksmönnum í Valhöll í dag þar sem Bjarni ræddi meðal annars orkupakkamálið, sem valdið hefur deilum innan flokksins þar sem hluti flokksmanna hefur sett fram skýra andstöðu gegn innleiðingu þriðja orkupakkans í íslensk lög. Á fundinum sagði Bjarni meðal annars að enginn trúðverðugleiki væri á bakvið málflutning og andstöðu Miðflokksins í umræðum um þriðja orkupakkann. Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi hefðu setið í forsætis- og utanríkisráðuneytinu áður en málið hefði farið til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Niðurstaða þeirra á þeim tíma hefði verið sú að innleiðing orkupakkans væri ekki brot gegn stjórnarskrá.
Sigmundur Davíð svarar
Sigmundur Davíð svaraði í stöðuuppfærslu eftir fundinn og sagði að Bjarni hefði þar flutt „gömlu línuna um að orkupakkinn hafi þegar verið orðinn til þegar ég var í ríkisstjórn. Jú pakkinn hafði lengi verið til en samt innleiddum við hann ekki. Auk þess heyrði málið ekki undir mig, ekki frekar en fjármálaráðherra á þeim tíma (hver sem það nú var). Málið heyrði hins vegar undir ráðherra Sjálfstæðisflokksins en ekki ætla ég að gagnrýna þann góða ráðherra enda innleiddi hann ekki orkupakkann.“
Maður hefði haldið að formaður Sjálfstæðisflokksins, sá ágæti maður, myndi boða eitthvað nýtt í orkupakkamálinu fyrst...
Posted by Sigmundur Davíð Gunnlaugsson on Saturday, August 10, 2019
Töldu málið standast stjórnarskrá
Í stöðuuppfærslu Bjarna, sem birt var í kjölfarið, segir að afstaða utanríkisráðuneytisins í tíð Gunnars Braga og Sigmundar Davíðs hafi verið sú að málið stæðist stjórnarskrá, að íslenskra hagsmuna hafi verið gætt í hvívetna og að ljúka bæri málinu með samþykkt í sameiginlegu EES nefndinni. Með öðrum orðum að stefnt skyldi að innleiðingu. „ Þingið skoðaði málið í tveimur þingnefndum og samþykkti að málið héldi áfram. Stjórnarmeirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks var sem sagt sammála um þetta. Í framhaldinu var málið afgreitt í sameiginlegu EES nefndinni. Í því fólust fyrirheit um að innleiða málið í lög, með eðlilegum fyrirvara um frekari aðkomu Alþingis. Það er því rík innistæða fyrir því að segja þá tvo hafa algerlega skipt um skoðun í málinu og blekking eða í besta falli útúrsnúningur þegar Sigmundur Davíð segir í dag: „en við innleiddum hann ekki.”
Fínn fundur í Valhöll í dag. Sigmundur Davíð hefði verið velkominn þangað. Við áttum ágætt samstarf um mikilvæg...
Posted by Bjarni Benediktsson on Saturday, August 10, 2019