Meðaltalsfjármagnstekjur íbúa á Seltjarnarnesi og í Garðabæ eru umtalsvert hærri en í öðrum stærri sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þær eiga þó enn töluvert í land með að ná þeim hæðum sem þær náðu á árunum fyrir bankahrun.
Meðaltalsfjármagnstekjur voru 1.379 þúsund krónur á hvern íbúa á Seltjarnarnesi í fyrra en 1.104 þúsund krónur í Garðabæ. Á sama tíma voru þær 541 þúsund krónur á hvern íbúa Reykjavíkur, 566 þúsund á íbúa í Kópavogi, 449 þúsund íbúa í Mosfellsbæ og 448 þúsund í Hafnarfirði.
Þessi munur á fjármagnstekjum á íbúa er fjarri því að vera nýtilkominn. Árið 2007, þegar bankagóðærið var í algleymingi, náði meðaltal fjármagnstekna á hvern íbúa á Seltjarnarnesi til að mynda 3.738 þúsund krónum og 3.165 þúsund krónum í Garðabæ. Þá var heildarmeðaltalið 775 þúsund krónur og meðaltal fjármagnstekna á Seltjarnarnesi því næstum fjórfalt hærra en hjá meðal Íslendingnum.
Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.
Fjármagnstekjur drógust saman milli ára
Fjármagnstekjur eru þær tekjur sem einstaklingar hafa af eignum sínum. Þær eru til að mynda vextir, arður, söluhagnaður eða leigutekjur af lausafé og fasteignum.
Ef einstaklingur er með þorra tekna sinna í formi fjármagnstekna þá borgar hann mun minna hlutfall af tekjum sínum til ríkissjóðs en ef hann er með þær í formi launatekna.
Venjulegur launamaður greiðir á bilinu 36,94 til 46,24 prósent af launum sínum í skatta að útsvari meðtöldu. Fjármagnstekjurskattur er hins vegar 22 prósent og ekki þarf að greiða neitt útsvar. Þeir sem hafa einvörðungu fjármagnstekjur greiða þar af leiðandi ekkert til reksturs þess sveitarfélags sem þeir búa í af þeim tekjum. Íbúar á Seltjarnarnesi og í Garðabæ greiða mun lægri útsvarsprósentu en íbúar annarra stórra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í Reykjavík er útsvarsprósentan í hámarki, og þar nemur greiðsla hvers greiðanda 14,52 prósent af launum þeirra. Í Kópavogi, Hafnarfirði og í Mosfellsbæ er hún lítið eitt lægri, eða 14,48 prósent. Á Seltjarnarnesi og í Garðabæ er hún hins vegar 13,7 prósent.
Alls námu fjármagnstekjur Íslendinga 123,5 milljörðum króna á árinu 2018.
Elíta úr viðskiptalífinu
Ástæða þess að fjármagnstekjur eru hærri á hvern íbúa Seltjarnarness og Garðabæjar er meðal annars sú að þar býr mikið af fólki sem á fjármagnseignir.
Í grein Magnúsar Þórs Torfasonar, lektors í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Þorgerðar Einarsdóttur, prófessors við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur, prófessors við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, og Margrétar Sigrúnar Sigurðardóttur, lektors við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, í tímaritinu Stjórnmál og Stjórnsýsla sumarið 2017 var fjallað um elítur á Íslandi og innbyrðis tengsl þeirra.
Niðurstaða hennar var að íslenskt samfélag væri lagskipt og að það væri gjá milli elítu og almennings. Flestir sem tilheyrðu þessari elítu búa, samkvæmt greininni, á Seltjarnarnesi og í Garðabæ. Þar búa 150 prósent fleiri einstaklingar í viðskipta- og atvinnulífselítunni en vænta hefði mætti út frá íbúafjölda.