Fjárfestingafélagið Stoðir hefur bætt við sig hlutum í Símanum og á nú 10,86 prósent í félaginu. Uppkaup Stoða í félaginu hófust í maí þegar keypt voru 8,11 prósent. Síðan hafa Stoðir bætt jafnt og þétt við sig hlutum og fjárfestingafélagið er nú annar stærsti hluthafi þessa stærsta fjarskiptafyrirtækis landsins. Einungis Lífeyrissjóður verzlunarmanna á stærri hlut, 12,27 prósent.
Stoðir, sem einu sinni hét FL Group, hefur á undanförnum misserum látið verulega til sín taka á íslenskum hlutabréfamarkaði. Félagið á tæplega fimm prósenta hlut í Arion banka og er stærsti innlendi einkafjárfestirinn í því félagi. Sá hlutur hefur að mestu verið keyptur á þessu ári. Þá eru Stoðir stærsti einstaki hluthafi TM með 9,97 prósent hlut en sá hlutur var keyptur í maí síðastliðnum.
Eigið fé 17,5 milljarðar um áramót
Stoðir, sem áður hét FL Group, fór með himinskautum fyrir bankahrun sem eitt umsvifamesta fjárfestingafélag bankabólunnar. Þegar Glitnir, stærsta eign FL Group, féll var ljóst að félagið myndi ekki lifa af. Það fór í greiðslustöðvun og síðar í gegnum nauðasamninga þar sem kröfuhafar eignuðust félagið. Stærstur þeirra var Glitnir, bankinn sem félagið hafði átt stóran hlut í.
Síðustu ár hafa Stoðir hægt og rólega selt eignir sínar og greitt afraksturinn til kröfuhafa. Vorið 2017 seldi svo GlitnirHoldco 40 prósent í félaginu á meðan að tvö félög, S121 ehf. og S122 ehf., keyptu rúman 50 prósenta hlut. Félögin tvö eru í eigu stórra hluthafa í Tryggingamiðstöðinni (TM) sem voru margir hverjir lykilmenn í FL Group á árunum fyrir hrun.
Í mars 2018 seldu Stoðir, í gegnum eignarhaldsfélagið Ferskur Holding 1, tæpan níu prósent eignarhlut sinn í hollenska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco, en yfirtökutilboðið var samþykkt af Refresco í október 2017. Söluverðið nam 144 milljónum evra, sem jafngilti um 18 milljörðum íslenskra króna. Hlutur Stoða var metinn á um 12,7 milljarða króna um áramótin 2016/2017, sem þýðir að félagið hagnaðist um rúma fimm milljarða á árinu 2017. Með hagnaði ársins 2017 hækkaði eigið fé félagsins einnig um fimm milljarða, en það stóð í 18,3 milljörðum íslenskra króna samkvæmt ársreikningifélagsins fyrir það ár. Stoðir högnuðust um tæplega 1,1 milljarð króna í fyrra og eigið fé félagsins nam 17,5 milljörðum króna í árslok.
Formaður stjórnar Stoða er Jón Sigurðsson, en með honum í stjórn sitja þeir Sigurjón Pálsson og Örvar Kærnested.
Framkvæmdastjóri félagsins er Júlíus Þorfinnsson.