Jim Ratcliffe, einn ríkasti maður Bretlands og stofnandi INEOS, sem hefur keypt upp tugi jarða á Íslandi á undanförnum misserum, hefur nú gert samkomulag við Hafrannsóknastofnun um rannsóknaráætlun í samvinnu við rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ratcliffe.
Samkvæmt tilkynningunni er rannsóknin hluti af starfi Ratcliffe til verndar íslenska laxastofninum og samkomulagið við Hafrannsóknastofnun hluti af sjálfbærri langtímaverndaráætlun sem miði að því að laxveiðar á Íslandi verði áfram „þær bestu og sjálfbærustu í heimi.“
Segist vilja vernda Atlantshafslaxinn
Samkvæmt tilkynningunni er rannsóknin er hluti af fyrirætlunum Ratcliffe um vernd Atlantshafslaxins á Norðausturlandi. Rannsóknaráætlun Hafrannsóknastofnunar verður jafnframt unnin í samstarfi við lífvísindadeild Imperial College í London.
Doktorsnemar frá hvorri stofnun munu framkvæma rannsóknir sem ná til núverandi stærðar stofna laxins, genakortlagningar og hátæknimerkinga fiska sem leiða á í ljós tengslin á milli umhverfis og hegðunar laxa í ánum og endurkomu þeirra í árnar úr hafi.
Niðurstöður rannsóknarinnar verða birtar í vísindaritum og styðja við verndarstarfið í og í nágrenni laxánna. Þegar niðurstöður liggja fyrir verður þeim einnig deilt með íslenskum stjórnvöldum og viðeigandi sveitarfélögum, að því er segir í tilkynningunni.
Gröftur hrogna hefst í haust
Samhliða nýju rannsóknunum og endurheimt gróðurfars, verður í haust, með aðstoð og undir sérfræðihandleiðslu Hafrannsóknastofnunar, hafinn árviss gröftur hrogna í ánum. Um einni milljón hrogna úr fiski af svæðinu verður á hverju ári komið fyrir í efri svæðum ánna þar sem laxinn hefur ekki komist áður, og opnaðar nýjar vaxtarlendur til þess að bæta vöxt og lífvænleika fiskanna á mikilvægu fyrra skeiði lífshlaups þeirra, að því er kemur fram í tilkynningunni.
Þá segir að stækkun hrygningar- og uppvaxtarsvæða laxins með byggingu nýrra laxastiga í Hafralónsá, Hofsá, og Miðfjarðará í Vopnafirði, er jafnframt hluti af langtímaáætlunum um að auka viðgang íslenska laxins. Framkvæmdunum miðar áfram með aðstoð fjárfestingar af hálfu Sir Jim og Strengs. Í Miðfjarðará var í fyrra lokið við og opnaður laxastigi. Þar hefur lax þegar náð bólfestu á nýjum svæðum í efri hluta árinnar, sem bætir við 4,5 kílómetrum af nýju búsvæði fyrir unglaxinn.
Allur hagnaður af starfsemi Strengs mun jafnframt renna aftur til verndarstarfs laxa á Norðausturlandi. Með verkefnunum er haldið áfram að vernda árnar og stækka uppvaxtarsvæði þeirra, um leið og unnið er með bændum og sveitarfélögum að vernd búsvæðisins, að því er segir í tilkynningunni.