Árni Pétur Jónsson hefur verið ráðinn forstjóri Skeljung og mun hefja störf í dag. Árni Pétur var síðast forstjóri Basko, sem átti m.a. 10-11 og Iceland verslanirnar og hlut í Eldum rétt. Hann lét af störfum hjá Basko í júlí í fyrra í kjölfar þess að Samkaup keyptu á annan tug verslanna af fyrirtækinu.
Tilkynning var um þetta í Kauphöll í morgun. Hann segist hlakka til verkefnisins. „Ég þekki Skeljung vel og veit að þar starfar öflugt og reynslumikið fólk. Starfsemi okkar á Íslandi og í Færeyjum byggir á traustum grunni sem við ætlum að halda áfram að þróa. Rekstrarumhverfi fyrirtækisins hefur og mun taka breytingum á næstu árum, sem gerir starfið mjög áhugavert.“
Árni Pétur var forstjóri Teymis á sínum tíma auk þess sem hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri hjá Olís og Högum áður en að varð forstjóri Basko. Hann hefur átt sæti í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja, ýmist sem stjórnarmaður eða stjórnarformaður. Má þar nefna fyrirtæki s.s. Lyfja, Securitas, Skeljungur, Penninn, Borgun og Eldum rétt. Þá hefur Árni Pétur komið að rekstri símafyrirtækisins Kall í Færeyjum og Bónus í Færeyjum.
Hefur unnið náið með Jóni Ásgeiri
Árni Pétur hefur áður unnið náið með, og fyrir, félög tengd Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, sem tók sæti í stjórn Skeljungs í maí síðastliðnum. Jón Ásgeir var til að mynda forstjóri og síðar stjórnarformaður Baugs Group, sem átti Haga og var stærsti hluthafinn í Teymi þegar Árni Pétur stýrði því fyrirtæki.
Jón Ásgeir settist í stjórn Skeljungs í krafti þess að 365 miðlar, félag í eigu Ingibjargar Pálmadóttur eiginkonu Jóns Ásgeirs, höfðu keypt upp hluti í félaginu. 365 miðlar eiga nú 4,32 prósent hlut í Skeljungi og eru sjöundi stærsti hluthafi félagsins.
Stærstu hluthafar Skeljungs eru íslenskir lífeyrissjóðir og bankar.
Jens Meinhard Rasmussen, stjórnarformaður Skeljungs, segir að með ráðningunni á Árna Pétri sem forstjóra Skeljungs sé félagið að fá reynslu og þekkingu sem nýtist því „til að sækja fram á við og móta fyrirtækið til framtíðar.“