Frá gærmorgni fram eftir degi var krísufundur á meðal flokksmeðlima Siumut, stærsta þingflokks grænlenska þingsins og landstjórnar Grænlands. Fundirnir komu í kjölfar yfirlýsingar sjö meðlima flokksins af tíu á mánudag um vantraust á Kim Kielsen, formanni Siumut og formanni grænlensku landstjórnarinnar. Þetta kemur fram á vef Sermitsiaq.
Óánægja með Kim Kielsen hefur kraumað í einhvern tíma og sendu þingmennirnir sjö frá sér sameiginlega fréttatilkynningu að þeir bæru ekki lengur traust til formanns síns. Þingmennirnir hafa krafist þess að Kielsen segi af sér sem formaður Siumut og sem formaður landsstjórnarinnar.
Segja Kielsen hafa svikið kosningaloforð
Þau skrifa í bréfinu að Siumut hafi svikið kosningaloforð sín, til að mynda hafi öllum aukakvóta grálúðu verið deilt til Royal Greenland í stað þess að deila því til ungra sjómanna sem vilja hefja eigin útgerð eða sjómanna á fámennum stöðum Grænlands.
Formaðurinn hafi heldur ekki staðið við loforð um kvóta á veiðum náhvala. Það hafi verið kosningaloforð að deila út auka kvóta til fleiri hvalveiðimanna, en Kielsen hafi ekki staðið við það.
Mun ekki segja af sér
Síðar í gær lýsti Kielsen því yfir að hann muni ekki segja af sér. „Við erum enn ósammála. En svona hefur þetta alltaf verið í Siumut flokknum, við erum góð í því. En við erum sammála um að bréfinu skuli vera vísað til svæðisnefnda. Það gerum við til að fylgja reglugerð flokksins,“ sagði Kielsen í samtali við Sermitsiaq. Hann gat hins vegar ekki sagt hver næstu skref væru eftir að nefndirnar hefðu tekið bréfið fyrir.
„Siumut hefur á síðustu misserum starfað við afar erfiðar aðstæður. Formaðurinn hefur verið uppvís að óvirðingu í hegðun sinni gagnvart meðlimum Inatsisartut [grænlenska þingsins] og ekki síst gagnvart kjósendum sem hann hefur ekki vilja til að hlusta á,“ stendur í yfirlýsingunni. Þá stendur jafnframt að ekki sé þörf á nýjum kosningum nái þingmenn samhljómi um nýjan formann.
Í gærkvöldi, eftir margra klukkutíma fund þingmanna Siumut, kom í ljós að ekki yrði efnt til nýrra kosninga. Síðar í gær gaf Kielsen út að hann myndi ekki gefa kost á sér á ný sem formaður flokksins á næsta landsfundi.
Uppbygging flugvalla hluti af deilunni
Deilurnar hafa staðið yfir í nokkra mánuði en opinberuðust síðasta föstudag þegar formaður fjárlaganefndar, Hermann Berthelsen, tók undir kröfu stjórnarandstöðunnar um að frestað skyldi undirskrift verksamninga um stækkun flugvalla. Flugvellirnir eru í Ilulissat og Nuuk, að því er kemur fram í frétt RÚV.
Málið hefur verið afar umdeilt í Grænlandi þar sem danska stjórnin og ríkið koma að stækkun flugvallanna, en Kielsen hefur ekki fallist á þær kröfur að fresta framkvæmdunum. Sumir telja að aðkoma danska ríkisins að uppbyggingunni geti stefnt sjálfstæði Grænlands í tvísýnu, að því er segir í fréttinni.