Forseti Íslands hefur fallist á tillögu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur dómsmálaráðherra um að Eiríkur Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands, verði skipaður dómari við Landsrétt frá og með 1. september næstkomandi en dómnefnd sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti mat Eirík hæfastan til að gegna embættinu.
Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins í dag.
Aðrir umsækjendur um embættið voru Ásmundur Helgason, Ástráður Haraldsson, Guðmundur Sigurðsson, Jón Höskuldsson og Jónas Jóhannsson.
Sérstök hæfisnefnd mat Eirík hæfastan þeirra sem sóttu um laust embætti landsréttardómara, eins og áður segir. Eiríkur var á meðal þeirra sem sóttu um stöðu landsréttardómara þegar 15 slíkar voru auglýstar til umsóknar í aðdraganda þess að millidómstigið tók til starfa. Hæfisnefnd mat Eirík þá sjöunda hæfastan af þeim sem sóttu um. Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað hins vegar að taka út fjóra þeirra sem hæfisnefndin hafði metið á meðal 15 hæfustu og setja aðra, sem nefndin hafði metið minna hæfa, inn á lista yfir þá sem hún vildi skipa. Alþingi samþykkti svo lista Sigríðar.
Í kjölfarið hafa íslenskir dómstólar úrskurðað að Sigríður hafi brotið stjórnsýslulög með atferli sínu. Auk þess komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu í málinu í mars að dómararnir fjórir sem voru færðir upp á lista Sigríðar væru ólöglega skipaðir, og geti þar með ekki fellt dóma yfir þeim sem fyrir þá koma, enda hafi þeir ekki hlotið réttláta málsmeðferð. Í kjölfar þess að dómur Mannréttindadómstólsins féll þá sagði Sigríður af sér embætti dómsmálaráðherra.
Staða opnaðist
Einn þeirra ellefu sem voru löglega skipaðir í Landsrétt, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, sagði starfi sínu lausu í vor og greindi frá því að hann hygðist setjast í helgan stein. Því verður laus staða við réttinn frá og með komandi hausti.
Hún var auglýst og umsóknarfrestur rann út síðla í maí. Alls sóttu átta um stöðuna, þar af tveir sitjandi dómarar í Landsrétti, Ásmundur Helgason og Ragnheiður Bragadóttir. Þau eru bæði á meðal þeirra fjögurra landsréttardómara sem hafa ekki fengið að dæma í málum frá því að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu var birt.