Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG, fjallaði um opinbera heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, í stöðuuppfærslu á Facebook í gærkvöldi en þar veltir hann því fyrir sér hvar mörkin séu dregin þegar háttsettir menn í stjórnskipan annarra landa sækja Ísland heim.
Töluvert hefur verið fjallað um heimsókn Pence til Íslands en hann er væntanlegur þann 4. september næstkomandi. Meðal annars hafa aðrir þingmenn gagnrýnt komu hans.
Gildir ekki hvaða skoðanir aðrir háttsettir menn hafa
„Margt er ritað um ábyrgð VG á því að varaforseti Bandaríkjanna komi til landsins (náungi með fullt af röngum skoðunum að margra okkar mati og þar með mín) – eins og valið sé úr því hvaða háttsettustu menn í stjórnskipan þeirra landa sem við höfum pólitísk/efnahagsleg/menningarleg samskipti við, fái hefðbundnar/diplómatískar viðtökur,“ skrifar Ari Trausti.
Þá gildi ekki einu hvaða skoðanir forsætisráðherra Ungverjalands hafi, forseti Póllands eða forseti Kína og Pence eða Mike Pompeo. „Kannski líka Boris blessaður Johnson eða hinn rómaði Pútín? Gildir ekki einu hvort frumkvæðið að heimsókn komi frá viðkomandi aðila eða íslenskri ríkisstjórn (hver sem hana skipar).“
Ari Trausti spyr enn fremur hvort til sé lævís og lipur leið til þess að ýja að „svikum við málstaðinn“ þegar svona heimsóknir eru á döfinni. „Eða kunna stjórnmálamenn ekki grunnreglur formlegra samskipta milli þjóðríkja? Þær gildar oftast, a.m.k. af hálfu landsstjórna í borgaralegum lýðræðisríkjum. Og jú, vissulega gæti komið til þess að íslensk stjórnvöld kæmu sér undan opinberri heimsókn til lands eða undan heimsókn erlends valdamanns frá landi sem við höfum formleg samskipti við; segjum t.d. Filippseyjar nú um stundir þar sem Dutarte gengur laus.“
Þingmaðurinn spyr því hvar mörkin séu dregin.
„Ekki sjálfsagt mál að slíku jaðarmenni sé tekið opnum örmum“
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi VG í stöðuuppfærslu í gær sem Ari Trausti bregst við á síðu sinni. Þá sagði Guðmundur Andri að Mike Pence væri kristinn öfgamaður sem hefði beitt sér gegn réttindum kvenna og verið opinskár í andúð sinni á hinsegin fólki, aðhylltist mismunun á grundvelli trúar og kynhneigðar og hefði gert sitt til að kynda undir því hatri sem orðið sé að meiriháttar samfélagsmeini í Bandaríkjunum og víðar.
„Það er ekki sjálfsagt mál að slíku jaðarmenni sé tekið opnum örmum þegar hann kemur hingað, þó að auðvitað þurfi að sýna embætti hans vissa kurteisi. Afar óheppilegt er að Bandaríkjamenn og utanríkisráðherra íslensku ríkisstjórnarinnar skuli vera tvísaga um tilgang ferðarinnar og það sem stendur til að ræða. Bandaríkjamenn segjast ætla að ræða hernaðarmál en Guðlaugur Þór nefndi aðeins efnahagsmál. Það er kannski feimnismál í ríkisstjórn undir forystu flokks sem segist andvígur varnarsamstarfi vestrænna þjóða en við þurfum nú samt að fá að vita af því ef ameríski herinn er að snúa hingað aftur undir stjórn slíkra manna sem Pence og Trumps,“ skrifaði Guðmundur Andri.
Ari Trausti segir að þingmaður Samfylkingarinnar sé iðinn við að gagnrýna VG og skrifi um tiltekna „kurteisi“ sem beri að sýna Mike Pence. Hann spyr hvað það merki í raun. „Líka er reynt að gera VG ábyrgt fyrir auknum framkvæmdum við Keflavíkurflugvöll.“
Til umhugsunar: Margt er ritað um ábyrgð VG á því að varaforseti Bandaríkjanna komi til landsins (náungi með fullt af...
Posted by Ari Trausti on Thursday, August 15, 2019
Biður utanríkisráðherra um nánari útskýringar á heimsókn Pence
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í gær á Facebook að Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, héldi því fram að tilefni heimsóknar Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands væri samstarf á sviði efnahags- og viðskiptamála. Guðlaugur Þór hefði þó sleppt því að nefna að ástæða heimsóknarinnar væri að undirstrika landfræðilegt mikilvægi Íslands á norðurslóðum og aðgerðir NATÓ til að bregðast við auknum umsvifum Rússlands.
„Mörgum brá eðlilega í brún snemmsumars þegar ríkisstjórnin færði 300 milljónir af fyrirhuguðum framlögum til þróunaraðstoðar í viðhald mannvirkja NATÓ á Keflavíkurflugvelli. Enn frekar þegar í ljós kom að umfang framkvæmda virðist margfalt það sem kynnt var,“ skrifaði Logi í færslunni á Facebook.
Ari Trausti fjallar um þessi orð Loga í máli sínu. „Logi Einarsson dregur fram 300 milljónir króna sem flutt er milli liða í ráðuneyti en ríkisstjórnin ábyrgst að skila til aftur þróunarstarfs, þaðan sem þær eru teknar, (nokkuð sem Logi gleymir að geta) og býsnast yfir því að mörgum brá brún að sjá að umfang framkvæmda virðist margfalt meira en kynnt var,“ skrifar hann og bætir því við að Logi hafi fengið í hendur – og öll utanríkismálanefnd – minnisblað þann 20. desember árið 2017 þar sem tíundaðar séu þessar framkvæmdir bandaríkjahers og NATO, með verðmiðum.
Ari Trausti líkur færslu sinni með því að spyrja: „Hvað skal segja?“