Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður vilja kaupa Grænland. Það segja heimildarmenn the Wall Street Journal. Heimildarmennirnir halda því fram að Trump hafi oft íhugað að kaupa Grænland og spurt þá hvort Bandaríkin gætu gert það. Trump er sagður hafa einstakan áhuga á auðlindum og strategískri legu Grænlands.
Því er jafnframt haldið fram að Trump hafi leitað til ráðgjafa Hvíta hússins um hvort möguleiki sé á kaupunum. Sumir ráðgjafar forsetans eru sagðir styðja hugmyndina og segja hana hagkvæma á meðan aðrir ráðgjafar telji hugmyndina vera fjarstæðukennda.
Á grænlensku fréttasíðunni Sermitsiaq stendur að óvíst sé hversu langt bandaríski forsetinn vilji fara með hugmynd sína. Þá liggi Grænland landfræðilega í Norður-Ameríku, en eigi söguleg-, pólitísk- og hagfræðileg tengsl við Evrópu.
Trump heimsækir Danmörku 2. til 3. september, þar sem hann mun hitta bæði Mette Frederiksen og Kim Kielsen og ræða málefni Grænlands og norðurslóða.