Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, telur að æskilegt sé að opinber skrá um hagsmunaverði (e. lobbyists) innihaldi upplýsingar um verkkaupa og vinnuveitendur þeirra. Hún segir að ekki sé hins vegar til skoðunar að hagsmunaverðir skrái hagsmuni sína í sama skilningi og nú gildir um hagsmunaskráningu ráðherra og alþingismanna.
Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn á Alþingi um skráningu hagsmuna almannatengla en unnið er að undirbúningi lagasetningar til varnar hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í ráðuneytinu um þessar mundir.
Opinber skrá um þá sem tala máli einkaaðila gagnvart stjórnvöldum
Í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Miðflokksins, um hvort að ráðherra hyggst beita sér fyrir því að almannatenglum verði gert skylt að skrá hagsmuni sína, kemur fram að í forsætisráðuneytið vinni nú að því að uppfylla tilmæli GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, sem fram komu í fimmtu úttekt samtakanna á Íslandi. Meðal tilmælanna var að settar yrðu reglur um samskipti æðstu handhafa framkvæmdarvalds við hagsmunaverði og aðra sem leitast við að hafa áhrif á störf stjórnvalda.Í júlí síðastliðnum birti forsætisráðuneytið áform um lagasetningu þess efnis í samráðsgáttinni. Þar kemur meðal annars fram að fyrirhugað sé að gera öllum aðilum sem sinna hagsmunavörslu, þar að segja þá sem hafa það að aðalstarfi að tala máli einkaaðila, eins eða fleiri, gagnvart handhöfum ríkisvalds, skylt að tilkynna sig til stjórnvalda svo unnt sé að birta opinberlega skrá yfir þá.
Gert er ráð fyrir því að skráin verði birt í B-deild Stjórnartíðinda og á vef Stjórnarráðs Íslands. Jafnframt segir að skoða þurfi hvort og þá hvaða viðurlög eigi að vera við því að vanrækja tilkynningarskylduna.
Auk þess er tekið fram að framangreindar reglur muni einnig taka til þeirra aðila sem sinna hagsmunavörslu fyrir tiltekna hópa án þess að falla undir almenna flokkun hagsmunavarða eins og hún verður skilgreind. Hér er átt við lögmenn eða almannatengla sem koma fram fyrir hönd tiltekinna aðila sem eiga sameiginlega hagsmuni. Samkvæmt lagaáforminu er með þessu reynt að tryggja að ekki verði hægt að komast hjá því að birta upplýsingar um samskipti ráðherra við til dæmis almannatengil sem vinnur fyrir nokkra aðila í ferðaþjónustu, vegna þess eins að almannatengillinn er ekki skráður hagsmunavörður.
Tímamörk á færslu úr opinberu starfi vegna hagsmunaárekstra
Enn fremur er fyrirhugað að mælt verið í lögum að ráðherrar, aðstoðarmenn, ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar og sendiherrar geti ekki í tiltekinn tíma eftir að opinberu starfi lýkur gegnt starfi fyrir skráða hagsmunaverði. Gert er ráð fyrir þeirri meginreglu að framangreindir aðilar þurfi að bíða í átta mánuði frá starfslokum en að þó verður gert ráð fyrir því að hægt verði að óska eftir undanþágu frá forsætisráðuneytinu á biðtíma eða styttingu biðtíma ef ljóst er að lítil eða engin hætta sé á hagsmunaárekstrum til dæmis vegna mismunandi eðlis starfs innan Stjórnarráðs Íslands annars vegar og fyrir hagsmunaverði hins vegar.
Þá er einnig stefnt að því að ráðuneytið geti tekið til skoðunar mál að eigin frumkvæði, til að mynda þau tilvik þar sem aðili hefur farið úr starfi innan Stjórnarráðs Íslands í annað starf þar sem umtalsverð hætta er á hagsmunaárekstrum án þess að kanna afstöðu ráðuneytisins fyrirfram. Gert er ráð fyrir því að ráðuneytið geti í þeim tilvikum annars vegar lagt stjórnvaldssektir á viðkomandi fyrir athæfið og eftir atvikum einnig dagsektir.
SA mótfallin opinberri skráningu hagsmunavarða
Samtök Atvinnulífsins gagnrýna þessi áform stjórnvalda í umsögn sinni í samráðsgáttinni. Í umsögn samtakanna segir að hér á landi tíðkast það ekki að spilling birtist í því að sterkir sérhagsmunaaðilar „nái tangarhaldi“ á stjórnvöldum og hafi áhrif á þau með viðbrögðum sínum við einstökum ákvörðunum, líkt og fjallað er um í fyrrnefndri úttektarskýrslu GRECO.
Því telja samtökin að ekki sé þörf á því að taka upp skráningu hagsmunaaðila hér á landi. „Aðstaðan hér er um flest frábrugðin því hvernig hún er í margfalt stærri þjóðfélögum. Í langflestum tilvikum er alveg ljóst hvaða hagsmunum einstök samtök eða starfsmenn þeirra þjóna hvort sem það eru samtök fyrirtækja, verkafólks, umhverfisverndarfólks, neytenda, dýravina eða önnur,“ segir í umsögninni.
Samtökin eru einnig andvíg því að sett séu almenn yfirgripsmikil ákvæði um „takmörkun á almennu atvinnufrelsi“ starfsmanna stjórnarráðsins eða kjörinna fulltrúa. „Það er jákvætt að einkafyrirtæki finni hæfa starfsmenn í þjónustu ríkis og sveitarfélaga og að yfirsýn og þekking þeirra sem af einhverjum ástæðum hætta í stjórnmálum nýtist sem víðast. Takmörkun á starfsvali getur því ekki orðið til annars en tjóns fyrir samfélagið.“
Að lokum segir í umsögn samtakanna að það sé mikilvægt að íslenskt atvinnulíf búi við skýrar og góðar leikreglur sem auka trúverðugleika og verja gegn ólögmætri háttsemi. Aftur á móti telja samtökin að eftirlit megi ekki vera of íþyngjandi vegna þess að það auki kostnað fyrirtækja og veiki samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.