Forsætisráðherrar Norðurlandanna og hópur norrænna forstjóra skrifuðu undir yfirlýsingu um samstarf með það að markmiði að sporna gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum í Hörpu í dag. Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram að mest aðkallandi séu samvinna og sameiginlegar aðgerðir sem beint er að loftslagsbreytingum, betri neysluhegðun og framleiðsla og um leið verði að tryggja jafnara og sanngjarnara samfélag.
Fjórtán fyrirtæki skrifuðu undir yfirlýsinguna
Sumarfundur forsætisráðherra Norðurlandanna stendur nú yfir hér á landi. Samkvæmt Stjórnarráðinu verður á fundinum fjallað um loftslagsmál, nýja framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar til næstu 10 ára, málefni Norðurslóða og stöðu mannréttindamála. Þá verður sérstaklega horft til tækifæra til þess að auka samstarf Norðurlandanna og Þýskalands til að takast á við áskoranir á alþjóðavettvangi, ekki hvað síst afleiðingar loftslagsbreytinga og stuðning við sjálfbæra þróun.
Norrænu forsætisráðherrarnir funduðu með forstjórum fjórtán fyrirtæki á Norðurlöndunum sem eru í samstarfi um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna undir yfirskriftinni Samtök norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð í Hörpu í dag. Þau fyrirtæki sem mynda samtökin eru Íslandsbanki, Marel, Equinor, GSMA, Hydro, Nokia, Posten Norge, SAS, Storebrand, Swedbank, Telenor, Telia, Vestas og Yara.
Öflugt samstarf stjórnvalda og atvinnulífsins lykill að árangri
Á fundinum kynntu forstjórarnir áherslu samtakanna á mikilvægi þess að uppfylla Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með bættum viðskiptaháttum og auknu samstarfi einkageirans og hins opinbera. Í tilkynningu frá samtökunum segir að ljóst sé að skammur tími sé til stefnu en stefnt er að því að uppfylla Heimsmarkmiðin árið 2030.
Helstu áherslur forstjóranna eru tvenns konar; annars vegar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi fyrirtækjanna og hins vegar að vinna sameiginlega að því að auka upplýsingagjöf um fjölbreytni í atvinnulífinu í þeim tilgangi að ná fram sem bestum starfsháttum í starfsemi fyrirtækjanna. Í yfirlýsingu ráðherranna og forstjóranna segir að ein mest aðkallandi sameiginlegra aðgerðin sé betri neysluhegðun og framleiðsla.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að öflugt samstarf og samstilltar aðgerðir atvinnulífs og stjórnvalda séu lykillinn að árangri í loftlagsmálum.
„Það er ánægjulegt að finna sterkan vilja atvinnulífsins til að gera betur og stjórnvöld vænta mikils af því samstarfi. Við verðum að gera meira og hraðar til að ná okkar markmiðum fyrir árið 2030. Loftslagsbreytingar koma verr niður á fátækum en ríkum og snerta konur á annan hátt en karla. Mannréttindi, félagslegt réttlæti og jafnrétti kynjanna eru því samtengd loftslagsmálum og allar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum verða að taka mið af því.“