Fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækið Sýn hf. hefur gefið út afkomuviðvörun þar sem fram kemur að tekjur fyrir árið 2019 vegna fjölmiðla og fjarskipta hafi verið ofáætlaðar um tæpar 400 milljónir króna í fyrri áætlun og að kostnaður við útsendingar miðla vanáætlaður um 160 milljónir króna.
Í tilkynningu til Kauphallar vegna þessa segir að framkvæmdastjórn Sýnar sé „búin að breyta uppgjörum deilda og skerpa á innri ferlum sem mun skila sér í áreiðanlegri spám héðan í frá. Sömuleiðis hafa aðgerðir sem gripið var til í rekstrinum í sumar lækkað kostnaðarstig fyrirtækisins umtalsvert til framtíðar.“
Félagið mun birta uppgjör sitt vegna fyrri hluta árs í næstu viku, nánar tiltekið 28. ágúst. Hlutabréf í Sýn hafa lækkað um átta prósent í Kauphöllinni það sem af er degi.
Uppsagnir í síðustu viku
Sýn varð til þegar Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi, breytti nafni sínu á aðalfundi sínum í mars í fyrra. Nokkrum mánuðum áður, nánar tiltekið í desember 2017, höfðu Fjarskipti sameinað fjölmiðlastarfsemi inn í rekstur félagsins sem fól í sér meðal annars Stöð 2, Stöð2 Sport, Vísi, Bylgjuna, FM957 og Xið 977. Miðlana höfðu Fjarskipti keypt af 365 miðlum. Nafnabreytingin var framkvæmd svo að heitið væri meira lýsandi fyrir starfsemi hins sameinaða félags.
Munu kynna stefnumótun til framtíðar
Sýn hefur ekki birt uppgjör sitt vegna annars ársfjórðungs, en mun gera það 28. ágúst, líkt og áður sagði. Félagið skilaði 670 milljónum króna hagnaði á fyrsta ársfjórðungi, sem er hækkun um 619 milljónir króna milli ára. Lykilástæða þess að Sýn skilaði hagnaði á ársfjórðungnum er vegna þess að bókfærður söluhagnaður vegna samruna P/F Hey, dótturfélags Sýnar hf. í Færeyjum og Nema, dótturfélag Tjaldurs, gekk í gegn á fjórðungnum og er 49,9 prósent hlutur Sýnar hf. í nýju sameinuðu félagi færður samkvæmt hlutdeildaraðferð og því ekki hluti af samstæðureikningsskilum Sýnar hf. frá byrjun þessa árs. Alls nemur bókfærður söluhagnaður vegna þessa 817 milljónum króna. Án hans hefði verið tap á rekstri Sýnar á ársfjórðungnum.
Tekjur Sýnar á tímabilinu voru 4.975 milljónir króna sem er lækkun um eitt prósent frá sama tímabili í fyrra, þegar tekjur voru 5.030 milljónir króna. Ef verðbólga er tekin inn í dæmið þá var samdrátturinn í rauntekjum meiri en áðurnefnt eitt prósent. Kostnaðarverð jókst að sama skapi og dróst framlegð saman um 118 milljónir króna milli ára.
Tekjur Sýnar samanstanda úr nokkrum stoðum. Sú eina þeirra sem skilaði meiri tekjum í ár en á sama ársfjórðungi 2018 var sala á internetþjónustu. Tekjur vegna fjölmiðlunar, farsíma, fastlínu og vörusölu drógust allar saman.
Von er á ítarlegri kynningu á stefnumótun Sýnar í næsta uppgjöri félagsins.