Icelandic Glacial, framleiðandi drykkjarvatns, hefur lokið hlutafjáraukningar að upphæð 31 milljón Bandaríkjadala eða tæplega fjögurra milljarða íslenskra króna. Frá þessu er greint í nýrri fréttatilkynningu frá Icelandic Glacial.
Fyrirtækið hefur jafnframt tryggt sér nýtt fjármagn frá skuldabréfasjóði sem stýrt er af BlackRocks' US Private Credit. Lánið nemur 35 milljónum Bandaríkjadala eða tæplega 4,4 milljörðum króna og hefur forgang á aðra kröfuhafa Icelandic Glacical.
Icelandic Glacial var stofnað árið 2004 og er vatnið er tekið úr gríðarstórri uppsprettu lindarvatns í Ölfusi, rétt utan Þorlákshafnar. Jón Ólafsson stofnandi og stjórnarformaður Icelandic Glacial segir þessa nýju fjármögnun vera mikla viðurkenningu.
„Það er ákaflega ánægjulegt að fá þessa kröftugu innspýtingu úr skuldabréfasjóðum BlackRock sem er á meðal öflugustu sjóðastýringarfyrirtækja heims. Þessi nýja fjármögnun er mikil viðurkenning á þeim árangri sem við höfum náð á undanförnum árum í að hasla okkur alþjóðlegan völl sem eitt af leiðandi vörumerkjum í hágæða drykkjarvatni,“ segir Jón.