Íslendingar, sem og aðrir ríkisborgarar frá ríkjum innan EES, sem flytja til Bretlands eftir 31. október á þessu ári þurfa að greiða fyrir þjónustu í breska heilbrigðiskerfinu (NHS) í kjölfar fyrirhugaðrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sendiráðs Íslands í London.
Breskir fjölmiðlar hafa greint frá því í vikunni að frjáls för fólks kunni að stöðvast strax í kjölfar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu í lok október. Samkvæmt upplýsingum frá breska innanríkisráðuneytinu á það hins vegar ekki við um EES-ríkisborgara sem flytja til Bretlands fyrir þann tíma. Að sama skapi hafa fjölmiðlar greint frá því að ríkisborgar frá ríkjum innan EES þurfi að greiða fyrir þjónustu í breska heilbrigðiskerfinu í kjölfar Brexit en samkvæmt sendiráði Íslands á það ekki við sem búsettur eru í Bretlandi fyrir útgöngu.
Þurfa að hafa réttindi til búsetu
Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í London, segir það aftur á móti áhyggjuefni hversu fáir íslenskir ríkisborgar hafa sótt um svokallaðan Settled Status en hingað til hafa eingöngu borist um 200 umsóknir frá Íslendingum. Umsóknarfrestur er til 31. desember 2020 en Stefán Haukur hvetur Íslendinga að draga það ekki of á langinn að sækja um þar sem afgreiðslutími umsóknanna gæti verið langur.
„Við mælum eindregið með því að fólk sæki um sem allra fyrst þar sem óvissa ríkir enn um útfærslu á útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Þó að samningar hafi náðst við bresk stjórnvöld um réttindi borgara eftir Brexit þá þurfa allir sem hér dvelja og hyggjast gera svo áfram að hafa réttindi til búsetu, þ.e. settled status eða pre-settled status,“ segir Stefán Haukur.