Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks og fjármála- og efnahagsráðherra, segir að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokks, verði ekki dómsmálaráðherra mikið lengur. Þórdís Kolbrún hefur gegnt embættinu samhliða öðrum ráðherrastörfum frá því að Sigríður Andersen sagði af sér í vor en hún muni halda áfram sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Þetta kom fram í viðtali við Bjarna í Kastljósi kvöldsins.
Þar sagðist hann muna gera tillögu um næsta dómsmálaráðherra við þingflokk sinn áður en að þing verður sett í september. Hann vildi þó ekki greina frá því strax hver myndi setjast í stólinn að öðru leyti en að viðkomandi verði ekki sóttur utan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Bjarni endurtók aðspurður það sem hann sagði nýverið á fundi í Valhöll að ekkert kæmi í veg fyrir að Sigríður Andersen gæti orðið ráðherra aftur.
Vill fá meira en 25 prósent fylgi
Formaður Sjálfstæðisflokksins ræddi einnig stöðu flokksins í könnunum um þessar mundir og sagði að flokkur hans hafi metnað til að fá meira fylgi en þau 25,2 prósent sem hann fékk í síðustu kosningum. Síðustu tvær kannanir MMR hafa sýnt fylgi Sjálfstæðisflokksins í 19,1 prósent fylgi sem er það lægsta sem flokkurinn hefur mælst með frá hruni.
Bjarni sagði að fylgið væri að dreifast meira en áður og að enginn flokkur hafi tekið við af Sjálfstæðisflokknum sem leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum.
Staða Íslands batnað mikið með hann í ríkisstjórn
Bjarni var spurður að því hvort hann hefði enn gaman af stjórnmálum og hvort hann ætli að sitja áfram sem formaður. Hann sagðist ekki hlaupa frá því að hafa stofnað til ríkisstjórnarsamstarfs við tvo flokka og að ekki væri langt síðan að hann hafi boðið sig fram sem formaður.
Hefurðu enn gaman á þessu, ætlarðu að sitja áfram? „Gleðin kemur úr því að sjá framgang mikilvægra mála,“ sagði Bjarni og bætti við að staðan á Íslandi hefði batnað mikið frá því að hann settist í ríkisstjórn 2013.
Þingflokkurinn hafi vandað sig við það en málið sé nú fullskoðað og fullrætt. Bjarna þykir sýnt að málið verði samþykkt á Alþingi í byrjun september.
Hann upplifir ekki að verið sé að grafa undan honum persónulega vegna málsins þótt skiptar skoðanir séu á því hvernig þingflokkurinn vinni það. Gagnrýnin sé á breiðari grunni og snúist meira að flokksforystunni í heild en sér einum.