Samdráttur var í greiðslukortaveltu Íslendinga erlendis í síðasta mánuði. Alls dróst veltan saman um 5,3 prósent á miðað við sama tíma í fyrra og er þetta mesti samdráttur síðan í október 2009. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans en að þeirra mati skýra færri flugferðir Íslendinga minni vöxt í kortaverslun erlendis.
Fall WOW air hefur áhrif
Kortavelta Íslendinga hér á landi yfir sumarmánuðina í ár er aftur á móti svipuð veltu sumarsins í fyrra, miðað við fast verðlag. Í júní var aukning upp á 0,6 prósent og í júlí var aukningin 3 prósent. Til samanburðar var aukningin að meðaltali tæp 4 prósent á sumarmánuðunum í fyrra.
Vöxtur í kortaverslun erlendis mældist hátt 20 prósent yfir sumarmánuðina í fyrra en talsverð breyting hefur orðið á þeim vexti í ár. Í vor mældist í fyrsta sinn samdráttur í kortveltu erlendis síðan í febrúar 2013 og er rúmlega fimm prósent samdráttur í kortaveltu í júlí sá mesti sem mælst hefur síðan í október 2009.
Í Hagsjánni segir að færri flugferðir Íslendinga til útlanda skýri að hluta til minni vöxt í kortanotkun erlendis. Frá falli WOW air í mars hefur mælst samdráttur í fjölda utanlandsferða Íslendinga í hverjum mánuði samanborið við sama mánuð árið á undan, að frátöldum páskaferðum í apríl. Þá voru brottfarir Íslendinga um Leifsstöð í júlímánuði um 9 prósent færri en á sama tíma fyrir ári.
Ekki fleiri ætlað að ferðast innanlands síðan 2014
Þessi samdráttur í fjölda utlandsferða Íslendinga rímar við könnun MMR frá því í júní síðastliðnum um ferðavenjur Íslendinga í sumarfríinu. Í niðurstöðum könnunarinnar kom fram að færri hyggðu á ferðalög erlendis eða alls 52 prósent svaranda, sem er fimm prósentustiga lækkun frá síðasta ári en hlutfall þeirra sem stefna á útlandaferðir hefur fyrr en nú hækkað á hverju ári frá árinu 2013.
Þá sögðust 78 prósent ætla ferðast innanlands í sumar en það hlutfall hefur ekki mælst hærra í könnun MMR frá júní 2014. Þá sögðust alls 38 prósent einungis ætla að ferðast innanlands.