Félag sem heitir WOW air Ltd., og er skráð í Englandi, var lengi vel í persónulegri eigu Skúla Mogensen. Félagið hét áður Mogensen Limited en nafni þess var breytt fyrir nokkrum árum. Starfsemi félagsins fólst aðallega í að leigja íbúð í London. Skúli Mogensen og kærasta hans bjuggu í umræddri íbúð en þau héldu heimili á Íslandi og í London.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu skiptastjóra WOW air sem kynnt var fyrir kröfuhöfum félagsins fyrir rúmri viku. Skýrslan byggir meðal annars á athugun Deloitte á því sem átti sér stað innan WOW air áður en félagið fór í gjaldþrot í lok mars. Hægt er að lesa ítarlega skýringu um niðurstöðu hennar hér.
Í skýrslu skiptastjóranna segir að flugfélagið hafi greitt 37 milljónir króna í leigu vegna íbúðarinnar á tveggja ára tímabili, frá 28. mars 2017 og þangað til að WOW air fór í þrot. Það þýðir að meðaltalsmánaðarleiga hefur verið rúmlega 1,5 milljón króna á mánuði.
WOW air Ltd. var framselt til WOW air í september 2018, sama mánuði og skuldabréfaútboð félagsins fór fram. Skiptastjórarnir segja að enginn samningur hafi veirð í gildi milli WOW air og WOW air Ltd. „vegna þessarar íbúðar og þá voru greiðslur WOW vegna hennar ekki samþykktar í stjórn félagsins.“
Skúli Mogensen sagði í yfirlýsingu sem hann sendi á fjölmiðla síðastliðinn mánudag að þegar WOW air hafi farið að leigja íbúðina, í byrjun árs 2017, hafi flugfélagið verið að undirbúa opnun á nýrri starfsstöð í London eða Dublin og jafnframt verið að skoða mögulega skráningu á markaði í London. „Hvort tveggja kallaði á verulega viðveru forstjóra í London. WOW air skilaði yfir 4 milljörðum í hagnað árið 2016 og því voru þessi áform eðlilegt skref í áframhaldandi uppbyggingu WOW air á þeim tíma og ekkert óeðlilegt við það að félagið skyldi leigja húsnæði fyrir forstjóra félagsins í þeim tilgangi að sinna þeim verkefnum.“
Þessi frétt er hluti af stærri umfjöllun um skýrslu skiptastjóra WOW air.