WOW átti ekki mikið af eignum þegar félagið fór í þrot. Félagið átti til að mynda enga fasteign en leigði fjölmargar slíkar. Fasteignir í eigu félagsins höfðu verið seldar í dauðastríðinu til að tryggja WOW air laust fé.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu skiptastjóra WOW air sem kynnt var fyrir kröfuhöfum félagsins fyrir rúmri viku. Skýrslan byggir meðal annars á athugun Deloitte á því sem átti sér stað innan WOW air áður en félagið fór í gjaldþrot í lok mars. Hægt er að lesa ítarlega skýringu um niðurstöðu hennar hér.
Skömmu fyrir gjaldþrot WOW air seldi félagið losunarheimildir kolefnis fyrir um 450 milljónir króna. Upphæðina átti að nota til að borga laun fyrir marsmánuð. WOW air hafði fengið umræddar losunarheimildir úthlutað án endurgjalds og virði þeirra hafði hækkað umtalsvert á starfstíma félagsins.
Vandséð er hvernig stjórnendur WOW air ætluðu að starfa áfram án losunarheimilda, en flugrekendur þurfa að afla sér slíkra til að mega fljúga.
Í skýrslu skiptastjóranna kemur fram að fjárhæðin sem losunarheimildirnar voru seldar fyrir hafí ekki verið greidd við þrot WOW air, en að hún hafi nú skilað sér „eftir nokkra eftirgangsmuni“.
Í skýrslu skiptastjóranna kemur hins vegar fram að enn hafi verið um 200 milljónir króna af kaupverðinu ógreiddar á þeim tíma sem félagið fór til gjaldþrot. Þær 200 milljónir króna skyldu þó aðeins greiðast ef WOW air yrði úthlutað afgreiðslutímum á Gatwick flugvelli veturinn 2019-2020. Úthlutun þeirra tíma fór fram í maí 2019, nokkru eftir að WOW air var farið í þrot. í skýrslunni segir að þrotabúinu hafi tekist „að fá afgreiðslutímum úthlutuðum til sín þrátt fyrir gjaldþrot og gat því efnt samninga við kaupendur. Það útheimti mikla vinnu skiptastjóra sem og innlendra og erlendra sérfræðinga að tryggja þá úthlutun afgreiðslutíma til þrotabúsins og greiðslu eftirstöðva kaupverðs.“
Fleira hefur verið selt. Til að mynda varahluta- og verkfæralager WOW air, bílar, skrifstofuhúsgögn, skrifstofubúnaður, lager, reiðhjólaleiga auk þess sem endurheimst hafa 111 milljónir króna vegna fjármuna sem settir höfðu verið til trygginga á ýmsum viðskiptum.
Þessi frétt er hluti af stærri umfjöllun um skýrslu skiptastjóra WOW air.