Loftslagsbreytingar, plastmengun og önnur mengunarhætta steðjar nú að hafinu og ef fram heldur sem horfir, verður þar meira af plasti en fiski árið 2050. Við þurfum að taka afstöðu með hafinu og vernda það. Heilbrigði hafsins er hnattrænt málefni sem snertir alla á jörðinni.
Svona hljómar kynningartexti fyrir nýja rafbók sem Landvernd hefur nú gefið út.
Bókin er ætluð sem námsefni og fjallar um haflæsi og áhrif loftslagsbreytinga og plastmengunar á hafið. Hafið er þannig notað sem rauður þráður í kennslu um loftslagsbreytingar, neyslu og sjálfbærni. Jafnframt er sérstakt þemaverkefni í bókinni sem nefnist Hafðu áhrif! Þá á að vera valdeflandi og veita nemendum verkfæri til að takast á við flókin viðfangsefni líkt og loftslagsbreytingar á tímum loftslagskvíða.
Á síðunni Hreint haf er hugtakið haflæs manneskja útskýrt. Hún sem sagt gerir sér grein fyrir mikilvægi hafsins í lífi okkar og annarra lífvera á jörðinni og vinnur að því að gæta að heilbrigði hafsins. Haflæs manneskja miðlar upplýsingum um hafið á áhrifaríkan hátt og tekur upplýstar og ábyrgar ákvarðanir í daglegu lífi sem styðja við heilbrigði hafsins.
Samkvæmt Landvernd er námsefnið ætlað nemendum á aldrinum 10 til 18 ára og tengist jafnframt grunnþáttum menntunar, þá sér í lagi sjálfbærni og lýðræði og mannréttindum, sköpun og heilbrigði og velferð. Að auki styðji námsefnið við skuldbindingar Íslands sem varða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Bókin er öllum aðgengileg, en samkvæmt náttúruverndarsamtökunum er hún læsilegust sem stendur í IBooks en unnið er að því að aðlaga og einfalda útgáfuna að öllum tækjum.
Margrét Hugadóttir er höfundur bókarinnar og um uppsetningu og hönnun sá Aron Freyr Heimisson. Útgáfan var styrkt af Þróunarsjóði Námsgagna.