Alls námu innstæður í viðskiptabönkum og sparisjóðum á Íslandi 1.707 milljörðum króna um síðustu áramót. Af þeim voru 1.424 milljarðar króna tryggðar af Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta (TIF), eða 83 prósent allra innstæðna.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Miðflokksins, um innstæðutryggingar.
Í sjóðnum voru 38 milljarðar króna í lok árs 2018, sem þýðir að tiltækt eigið fé hans var einungis 2,2 prósent af öllum innstæðum.
Gat ekki staðið undir Icesave-greiðslum
TIF er sjálfseignarstofnun sem bankar og sparisjóðir greiða til og lýtur eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Tilgangur sjóðsins er að greiða innstæðueigendum út innstæður sínar ef bankar eða sparisjóðir sem hafa tekið við þeim geta það ekki. Á þetta reyndi umtalsvert í bankahruninu, sérstaklega í tengslum við Icesave-reikninga Landsbankans.
Á endanum var til, og rúmlega það, í þrotabúi Landsbankans til að greiða Icesave-reikninginn og Bretar og Hollendingar fengu 53,5 milljarða króna umfram þann höfuðstól sem þeir greiddu innstæðueigendum, að mestu vegna gengishagnaðar.
Ekki tilefni til að framkvæma sérstök álagspróf
Samkvæmt gildandi lögum er lágmark tryggingarverndar 20.887 evrur í íslenskum krónum. Það þýðir að hver og einn innstæðueigandi á rétt á greiðslu upp að þeirri upphæð ef bankinn sem hann hefur geymt innstæður sínar í fer á hausinn og getur ekki greitt þær út. TIF á að greiða út þá greiðslu.
Ólafur spurði fjármála- og efnahagsráðherra meðal annars að því hvort þar til bærir eftirlitsaðilar hafi framkvæmt álagsprófanir til að sannreyna greiðslugetu TIF.
Í svarinu segir að Seðlabanki Íslands framkvæmi árlega álagspróf á bankakerfinu öllu og að það hafi komið ágætlega út úr álagsprófum með sérlega svartsýnum forsendum. Fyrir liggi að hlutverk Tryggingarsjóðsins mun taka breytingum til framtíðar og fyrirséð sé að aðkoma hans í tilviki greiðsluerfiðleika kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja verður takmörkuð. „Meðal annars af þeim sökum hefur ekki verið talið tilefni til að framkvæma sérstök álagspróf til að sannreyna greiðslugetu sjóðsins. Hins vegar gerir stjórn sjóðsins ráðherra árlega grein fyrir fjárhagslegri stöðu hans og á tveggja ára fresti, eða oftar, gerir stjórn ráðherra grein fyrir afstöðu sinni til lágmarkseignar sjóðsins.“