Greinendur Arion banka segja að nýjar tölur Hagstofu Íslands um inn- og útflutning sýni jákvæðari mynd en margir þorðu að teikna upp, eftir fall WOW air í lok mars. Samdrátturinn í þjónustuafganginum sé lítill.
Ástæðan fyrir betri hagtölum, miðað það sem margir þorðu að spá, er meðal annars veikari króna en í fyrra, sem skilar meiri tekjum í krónum talið fyrir gjaldeyri, og síðan minni samdráttur í ferðaþjónustu, en margir óttuðust. „Samkvæmt bráðabirgðatölunum nam afgangur af þjónustuviðskiptum 52 ma.kr., sem samsvarar eingöngu 10% samdrætti á milli ára, á föstu gengi. Á breytilegu gengi jókst hins vegar afgangurinn um 700 milljónir króna, eða 1,4%, þar sem gengi krónunnar er töluvert veikara en það var á 2F 2018,“ segir í greiningu Arion banka.
Á fyrstu sjö mánuðum ársins fluttu Íslendingar inn vörur og þjónustu fyrir 319,8 milljarða króna en út fyrir 329,8 milljarða króna. Vöru- og þjónustujöfnuður var því jákvæður um 9,4 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi 2019.
Þegar krónan var sterkust, á vormánuðum í fyrra, kostaði Bandaríkjadalur 97 krónur en hann kostar nú 125 krónur.
Í greiningu Arion banka kemur þó fram sá fyrirvari, að greinendur bankans hafi ekki áttað sig almennilega á því hvers vegna samdrátturinn í innfluttri þjónustu hafi verið jafn mikill og raun ber vitni í tölum Hagstofunnar, en fyrir vikið kemur þjónustuhlutinn betur út fyrir þjóðarbúið.
„Samkvæmt bráðabirgðatölunum nam afgangur af þjónustuviðskiptum 52 ma.kr., sem samsvarar eingöngu 10% samdrætti á milli ára, á föstu gengi. Á breytilegu gengi jókst hins vegar afgangurinn um 700 milljónir króna, eða 1,4%, þar sem gengi krónunnar er töluvert veikara en það var á 2F 2018. Þetta er ívið betri niðurstaða en við þorðum að vona, en spá okkar hljóðaði upp á 26 ma.kr. afgang. Að þessu sinni var það innflutt þjónusta sem kom okkur í opna skjöldu, en hversu mikill samdrátturinn reyndist milli ára er ráðgáta sem við höfum ekki ennþá komist til botns í,“ segir í greiningunni.
Almennt hafa tölur úr ferðaþjónustunni komið betur út, en margir gerðu ráð fyrir, en kortavelta ferðamanna hefur haldist nokkuð há, og verið yfir því sem raunin var í fyrra - mælt á hvern ferðamann að meðaltali. „Í ljósi mikils kortaveltuvaxtar á hvern ferðamann samanborið við árið 2018, lengri dvalartíma og veikari krónu var útséð að ferðalög, eða heildarneysla ferðamanna, myndi dragast minna saman en nemur fækkun ferðamanna. Sú varð raunin, og gott betur en það, þar sem neysla ferðamanna jókst um 0,1% milli ára á breytilegu gengi, þrátt fyrir 19,2% fækkun ferðamanna,“ segir í greiningunni.