„Jæja, þá eru Sjálfstæðismenn að leggja upp í enn eitt menningarstríðið. Í þetta sinn er það gegn auknu vali á grænmeti og ávöxtum í mötuneytum borgarinnar. Þetta nær ekki nokkurri átt lengur. Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki standa fyrir neitt annað en tilfinningalegt uppnám yfir ímynduðum ofsóknum,“ skrifar Dóra Björt Guðjónsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í borgarstjórn, í færslu á Facebook og vísar þar til Facebook-færslu Eyþórs Laxdals Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins.
Skoða að minnka framboð á dýraafurðum í grunnskólum Reykjavíkur
Mikil umræða hefur skapast eftir að Samtök grænkera á Íslandi sendu stjórnvöldum áskorun í síðustu viku um að hætta alveg að bjóða dýraafurðir eða draga verulega úr framboði þeirra í mötuneytum skóla í ljósi hamfarahlýnunar.
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG og fulltrúi í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar, sagðist í kvöldfréttum RÚV á sunnudag fanga þessari áskorun samtakanna og að meirihlutinn í borgarstjórn væri einhuga um að skoða að minnka framboð á dýraafurðum í grunnskólum borgarinnar. Hún sagði jafnframt í stöðufærslu á Facebook að hún hafi lengi verið þeirrar skoðunar að minnka ætti verulega eða hætta ætti öllu kjötframboði í mötuneytum borgarinnar en að hún hafi hins vegar lært að samstaðan og samtalið skilar bestum árangri.
Stendur ekki til að troða veganisma í kokið á neinum
Eyþór Arnalds er hins vegar ekki sammála þeirri hugmynd meirihlutans um að draga úr kjötneysla í skólum borgarinnar. „Skólamatur í Reykjavík gæti verið betri. Um það eru flestir sammála. En í stað þess að bæta matinn í grunnskólum ætla fulltrúar "meirihlutans" í borgarstjórn að skerða prótíninnihald fyrir reykvísk skólabörn!,“ skrifaði Eyþór meðal annars í færslu sinni á Facebook.
Dóra Björt hefur svarað þessari færslu Eyþórs og segir að alltaf séu skilaboðin sú að að lífsgæði hefðbundinna Sjálfstæðismanna standi ógn af „menningarmarxistunum“ í borgarmeirihlutanum. Ef það eru ekki mötuneyti starfsmanna sem séu fyrir þeim þá séu það reiðhjól, mathallir eða borgarlína.
„Eyþór veit alveg sjálfur að það stendur ekkert til að troða veganisma ofan í kokið á einum né neinum. Honum er bara alveg sama hvað er rétt og hvað er rangt og stekkur eins og alltaf á tækifæri til að skruma,“ segir Dóra Björt.
Ekki stríð gegn kjötætum
Hún segir að matarstefna Reykjavíkurborgar hafi verið samþykkt af öllum flokkum og markmið hennar sé hollur og góður matur á vegum borgarinnar. „Það er ekki stríð gegn einkabílnum að öðrum sé boðið að hjóla og taka strætó. Það er ekki stríð gegn veitingahúsum að starfsfólkið okkar fái aðgang að mötuneytum og það er ekki stríð gegn kjötætum að bjóða upp á ávexti og grænmeti í skólum barna,“ skrifar Dóra Björt.
Hún segir sé stríð í gangi þá sé það gegn vitrænni umræðu þegar oddviti Sjálfstæðisflokksins finni hjá sér þörf til að klæða sig í bol merktum kjöti og þingmaður flokksins beri aukið val í mötuneytum skóla- og frístundasviðs við Austur-Berlín og vísar þar til athugasemda Páls Magnússonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, við stöðufærslu Eyþórs.
Jæja, þá eru Sjálfstæðismenn að leggja upp í enn eitt menningarstríðið. Í þetta sinn er það gegn auknu vali á grænmeti...
Posted by Dóra Björt on Tuesday, August 27, 2019