Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði og fyrrverandi efnahags-og viðskiptaráðherra, segir að markaður fyrir innanlandsflug sé afar lítill og telur hann það vera vonlaust að hann geti staðið undir tíðu áætlunarflugi. Frá þessu greinir hann í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
„Það búa innan við 70 þúsund manns á þeim hluta landsins sem er nógu fjarri höfuðborgarsvæðinu til þess að það gæti komið til greina að fljúga þangað, ef við miðum við Snæfellsnes í norðri og Árnessýslu í austri sem mörk þess svæðis þar sem alltaf væri fljótlegra að keyra,“ skrifar hann.
Að hans mati gerir þetta stöðuna enn þrengri að Reykjavíkurflugvöllur og Keflavíkurflugvöllur verði aðskildir.
Núgildandi kerfi virkar ekki
Vísar Gylfi í frétt Fréttablaðsins þar sem fram kemur að flugfarþegar í innanlandskerfinu fyrstu sjö mánuði ársins hafi ekki verið færri síðan árið 2002. Þá segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þetta vera áhyggjuefni og að spýta þurfi í lófana. „Við verðum bara að viðurkenna að kerfið sem við höfum verið að nota til að styrkja innanlandsflugið, niðurgreiða það með einhverjum hætti, hefur ekki virkað fyrir neinn. Hvorki fyrir farþega, flugrekendur né flugvallareigendur,“ segir ráðherrann í samtali við Fréttablaðið.
Þess vegna sé hin svokallaða skoska leið til skoðunar, þar sem ríkið niðurgreiðir flugfargjöld fyrir fólk sem býr á ákveðnum svæðum. „Sú leið virðist þar sem hún hefur verið tekin upp hafa leitt til fjölgunar farþega, fleiri ferða og lægri fargjalda. Þannig hefur stuðningur við íbúa verið jafnaður þannig að þeir geti leitað sér eðlilegrar þjónustu til þess staðar sem ríkið hefur ákveðið að byggja upp þjónustu á,“ segir Sigurður Ingi.
Hægt að leysa vandann með flugvelli í Hvassahrauni
Gylfi segir að erlendir ferðamenn nýti innanlandsflugið mjög lítið og að fólk sem býr úti á landi eigi mjög erfitt með að samtengja innanlandsflug og millilandaflug. „Því væri hægt að breyta með því að sameina þessa tvo flugvelli með nýjum velli í Hvassahrauni, sem hefði auðvitað þann kost líka að losa mikið landrými á miðju höfuðborgarsvæðinu. Styrkir til farmiðakaupa breyta þessum vanda ekkert, færa hann bara yfir á herðar skattborgara í enn ríkari mæli en áður,“ skrifar hann.
Hann lýkur færslu sinni á því að segja að áhugavert væri að sjá tölur um það hve margir þeirra, sem ferðast með innanlandsflugi nú, borgi miðann sinn sjálfir. „Líklega er allnokkur hluti þeirra að ferðast á vegum hins opinbera, t.d. stjórnmálamenn eða opinberir starfsmenn og einnig stór hluti að ferðast vegna vinnu fyrir einkafyrirtæki.“
Það búa innan við 70 þús. manns á þeim hluta landsins sem er nógu fjarri höfuðborgarsvæðinu til þess að það gæti komið...
Posted by Gylfi Magnússon on Wednesday, August 28, 2019
Flugvöllur í Hvassahrauni ódýrari en stækkunaráform á Keflavíkurflugvelli
Fram kom í frétt Kjarnans í lok maí síðastliðins að Sigurður Ingi hefði lagt fyrir ríkisstjórn minnisblað þar sem lagt var til að veðurmælingar og flugprófanir hæfust í Hvassahrauni á komandi hausti. Kostnaður við þær er áætlaður 30 til 50 milljónir króna og myndu þær taka allt að tvö ár.
Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans kom fram að hugmyndir hefðu verið uppi um að hagkvæmara væri að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni en halda áfram uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. Af því tilefni hefði Icelandair fengið sérfræðing í gerð flugvalla, Doug F. Goldberg, til að áætla fyrir sig kostnað við nýjan flugvöll í Hvassahrauni. Niðurstaðan hefði verið sú að nýr flugvöllur í Hvassahrauni yrði ódýrari en stækkunaráform Isavia á Keflavíkurflugvelli.