Tekjur Samherja vegna þorra starfsemi félagsins á Íslandi og í Færeyjum voru 43 milljarðar króna í fyrra og hagnaður af rekstri starfseminnar var 8,7 milljarðar króna. Eigið fé þess hluta starfseminnar var 59,5 milljarðar króna um síðustu áramót og jókst um 10,4 milljarða króna milli ára. Þetta kemur fram í frétt sem birt hefur verið á heimasíðu fyrirtækisins.
Frá og með 30. september 2017 var starfsemi Samherja skipt upp í tvennt, innlendu starfsemina og starfsemi fyrirtækisins í Færeyjum, sem fer fram undir hatti Samherja hf. og erlendu starfsemina sem fer fram í félaginu Samherji Holding ehf. Á meðal þeirra eigna sem færðar voru þangað yfir voru eignarhlutir Samherja í dótturfélögum í Þýskalandi, Noregi, Bretlandi og í fjárfestingafélagi á Íslandi.
Ársreikningar félaganna tveggja hafa ekki verið sendir inn til ársreikningaskráar enn sem komið er og því er ekki hægt að nálgast upplýsingar um hver afkoma Samherja Holding ehf. var í fyrra.
Helstu eigendur Samherja eru frændurnir, forstjórinn Þorsteinn Már Baldvinsson og útgerðarstjórinn Kristján Vilhelmsson.
Samherji hf. stundar ekki einungis viðskipti með sjávarafurðir, heldur á félagið einnig stóran hlut í smásölurisanum Högum, en það er fjórði stærsti hluthafi þess með 9,26 prósent eignarhlut.
Eigið fé samstæðu komið yfir 100 milljarða
Samherji hagnaðist um 14,4 milljarða króna á árinu 2017 og frá byrjun árs 2011 hefur hagnaður félagsins numið tæplega 110 milljörðum króna hið minnsta. Við þann hagnað á eftir að bæta afkomu Samherja Holding á árinu 2017.
Eigin fé Samherja í lok árs 2017 var 94,4 milljarðar króna en við uppskiptingu félagsins voru 364,6 milljónir evra, um 48,7 milljarðar króna, fluttir yfir í Samherji Holding ehf. Það þýðir að eigið fé Samherja samstæðunnar er orðið að minnsta kosti 108 milljarðar króna ef gengið er út frá því að Samherji Holding ehf. hafi ekki tapað peningum í fyrra. Þá á auk þess eftir að bæta við hagnaði þess félags.
Samherji Holding ehf. sýslar þó ekki einungis með eignir félagsins erlendis í sjávarútvegi. Félagið er líka umfangsmikill fjárfestir á íslenskum hlutabréfamarkaði og er til að mynda stærsti einstaki eigandi hlutabréfa í Eimskip, með 27,1 prósent eignarhlut. Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Samherja, er stjórnarformaður Eimskips og í janúar í ár var Vilhelm Már Þorsteinsson, frændi þeirra, ráðinn sem forstjóri skipafélagsins.