Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR, hefur tekið við formennsku í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna af Ólafi Reimari Gunnarssyni. Varaformaður stjórnarinnar er áfram Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sjóðsins.
Ný stjórn sjóðsins kom saman til fundar í gær og tóku þá sæti í stjórninni fjórir nýir fulltrúar VR og einn nýr fulltrúi tilnefndur af Kaupmannasamtökum Íslands, en fulltrúi samtakanna, Benedikt K. Kristjánsson, féll frá á liðnu sumri.
Trúnaðarbrestur vegna hækkunar á vöxtum
Lífeyrissjóður verzlunarmanna er næst stærsti lífeyrissjóður landsins og tilnefnir VR helming stjórnarmanna sjóðsins en samtök ýmissa atvinnurekenda hinn helminginn. Heildareignir sjóðsins voru metnar á 713,5 milljarða króna um síðustu áramót. Hann er mjög umsvifamikill fjárfestir í íslensku viðskiptalífi og á stóran hlut í flestum skráðum félögum hérlendis. Verðmætasta hlutabréfaeign sjóðsins er hluti í Marel.
Sjóðurinn á einnig stóran hlut í félögum á borð við HB Granda, Reginn, Icelandair og Eimskip. Þá er Lífeyrissjóður verzlunarmanna stærsti einstaki hluthafinn í Kviku banka með 9,49 prósent hlut
Á fundi sem haldinn var í fulltrúaráði VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna í júní síðastliðnum var samþykkt að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og var að auki samþykkt tillaga um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða. Áður hafði stjórn VR lýst yfir trúnaðarbresti gagnvart stjórnarmönnum félagsins hjá sjóðnum vegna samþykktar stjórnar hans um hækkun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána sem gengur í berhögg við hina miklu áherslu sem lögð var á vaxtalækkanir í nýgerðum kjarasamningi.
Fjórir nýjir fulltrúar VR
Aðgerð félagsins vakti hörð viðbrögð stjórnarmanna en í lok síðustu viku var greint frá því VR hafi náð samkomulagi við Lífeyrissjóð verzlunarmanna um að þeir stjórnarmenn sem nú sitja í stjórninni í nafni VR munu láta af störfum og í stað þeirra munu þeir stjórnarmenn sem VR skipaði þann 14. ágúst. Þau Guðrún Johnsen, Bjarni Þór Sigurðsson, Helga Ingólfsdóttir og Stefán Sveinbjörnsson hafa því nú tekið sæti í stjórninni.
Stjórn Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna er nú skipuð:
Bjarni Þór Sigurðsson, tilnefndur af VR
Guðrún Johnsen, tilnefnd af VR
Helga Ingólfsdóttir, tilnefnd af VR
Stefán Sveinbjörnsson formaður, tilnefndur af VR
Árni Stefánsson, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins að fengnu áliti Viðskiptaráðs Íslands
Guðný Rósa Þorvarðardóttir, tilnefnd af Félagi atvinnurekenda
Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður, tilnefnd af Samtökum iðnaðarins að fengnu áliti Samtaka atvinnulífsins
Margrét Sif Hafsteinsdóttir, tilnefnd af Kaupmannasamtökum Íslands