Sjólaskipasystkinin, sem ákærð eru fyrir umfangsmikil skattsvik, hafa kært til ríkissaksóknara meintan upplýsingaleka frá héraðssaksóknara í fjölmiðla. Frá þessu er greint á RÚV. Þau krefjast jafnframt að máli héraðssaksóknara gegn þeim verði vísað frá dómi.
Samkvæmt frétt RÚV telja þau að Ingi Freyr Vilhjálmsson, fyrrverandi blaðamaður á Fréttatímanum sem starfar nú hjá Stundinni, hafi fengið trúnaðarupplýsingar um rannsókn skattamálsins frá embætti héraðssaksóknara. Þær upplýsingar hafi verið nýttar við skrif á tveimur fréttagreinum.
Sá sem sækir skattamálið gegn systkinum fyrir hönd héraðssaksóknara er Finnur Þór Vilhjálmsson, bróðir Inga Freys, samkvæmt fréttinni. Kæran beinist þó að embættinu en ekki saksóknaranum persónulega.
Ákæran á hendur systkinunum í Sjólaskipum fyrir skattalagabrot var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þar kröfðust verjendur systkinanna þess að málinu yrði vísað frá dómi. Krafan er byggð á því að Ingi Freyr, bróðir Finns, hafi skrifað stærstan hluta frétta af málinu þegar það var til rannsóknar. Sakborningar telja þetta ástæðu til að draga í efa hlutleysi saksóknara.
Nöfn systkinanna í Panamaskjölunum
Fréttatíminn greindi frá því í nóvember árið 2016 að skattrannsóknarstjóri hefði kært viðskipti systkinanna í skattaskjólinu Tortólu til héraðssaksóknara. Í frétt blaðsins kom meðal annars fram að aflandsfélögin á Tortólu hefðu verið notuð til að greiða kreditkortareikninga fjölskyldumeðlima.
Í frétt Fréttatímans og Reykjavík Media frá því í október 2016 kom enn fremur fram að Sjólaskip hefði átt útgerð á Kanaríeyjum sem fyrirtækið seldi Samherja árið 2007 fyrir nokkra milljarða króna. Nöfn systkinanna fjögurra, þeirra Guðmundar Steinars Jónssonar, Haraldar Reynis Jónssonar, Ragnheiðar Jónu Jónsdóttur og Berglindar Bjarkar Jónsdóttur, hefði jafnframt verið að finna í Panamaskjölunum svokölluðu frá Mossack Fonseca.
Héraðssaksóknari mótmælir fullyrðingunum
Samkvæmt RÚV mótmælir embætti héraðssaksóknara fullyrðingum ákærðu í málinu. Héraðssaksóknari segist ekki hafa fengið upplýsingar um kærurnar fyrr en við þingfestingu málsins í gær. Gert er ráð fyrir því að Finnur Þór flytji mál héraðssaksóknara þegar frávísunarkrafan verður flutt.
Í frétt RÚV kemur enn fremur fram að kæran til ríkissaksóknara snúist annars vegar um upplýsingar sem birtust í fyrrnefndri frétt í Fréttatímanum í nóvember 2016 og hins vegar upplýsingar sem birtust í Stundinni í mars um að rannsókn Héraðssaksóknara væri lokið.