Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið segir að engar forsendur séu til þess að fullyrða að verkefni Atlantic Superconnection um að leggja sæstreng frá Íslandi til Bretlands muni uppfylla íslenskar kröfur. Verkefnið hafi ekki hlotið samþykki Alþingis sem verði skilyrði fyrir lagningu sæstrengs verði frumvörp og þingsályktunartillögur um þriðja orkupakkann samþykkt eftir helgi. Ráðuneytið hafi ekki haft frumkvæði að einum einasta fundi með fulltrúum Atlantic Superconnection og það hefur ekki tekið afstöðu til verkefnisins.
Útilokað sé að meta hvort umrætt verkefni samræmist reglum sem hafi ekki verið settar, enda sé íslenskt regluverk um sæstrengi mjög takmarkað. „Ástæða er til að árétta að þriðji orkupakkinn er því fjarri því að innihalda fullnægjandi regluverk til að sæstrengur geti orðið að veruleika og hann tekur ekki ákvörðunarvald um lagningu nýrra strengja af íslenskum stjórnvöldum.“
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef ráðuneytisins vegna fréttar Morgunblaðsins í morgun um að sælstrengsverkefni Atlantic Superconnection biði nú eftir grænu ljósi í Bretlandi. Sú frétt byggði á umfjöllun í Financial Times þar sem sagði að áformin hafi þegar uppfyllt kröfur samkvæmt íslenskum lögum og að fjárfestar þrýsti nú á ráðamenn nýrrar ríkisstjórnar Bretlands að samþykkja verkefnið.
Friðjón R. Friðjónsson, einn eigenda almannatengslafyrirtækisins KOM, birti stöðuuppfærslu á Facebook um málið, en KOM hefur starfað fyrir Atlantic Superconnection undanfarin ár. Þar segir hann frétt Morgunblaðsins unna upp úr slúðurdálki Financial Times. „Þetta er svona dálkur eins og Sandkorn DV og áreiðanleikinn eftir því,“ segir Friðjón. Hann segir enn fremur að enginn formlegur stuðningur liggi fyrir við verkefnið, hvorki frá breskum né íslenskum stjórnvöldum.
Íslenskra stjórnvalda að ákveða
Kjarninn fjallaði um Atlantic Superconnection verkefnið í lok maí síðastliðins og ræddi þar meðal annars við Edmund Truell, sem fer fyrir fyrirtækinu. Sú umfjöllun birtist í kjölfar fréttar breska dagblaðsins The Times sem fjallaði um, líkt og frétt Morgunblaðsins í morgun, að Truell vildi að bresk stjórnvöld gefi grænt ljós á framkvæmdir sem geri Bretum kleift að sækja raforku til Íslands með lagningu rúmlega 1.000 kílómetra sæstrengs. Í þeirri umfjöllun kom einnig fram að öll fjármögnun lægi fyrir og að einungis vanti samþykki breskra stjórnvalda.
Í svari sínu við skriflegri fyrirspurn Kjarnans um málið sagði Truell að forsenda þess að fjármögnun klárist sé að bresk stjórnvöld veiti staðfest samþykki fyrir því að Atlantic Superconnection vinni að þessu verkefni fyrir þeirra hönd. „Ef samþykki fæst þaðan og íslensk stjórnvöld lýsa áhuga á kanna verkefnið frekar þá er Atlantic Superconnection sannfært um að fjármögnun náist enda hafi 25 bankar og fjárfestar lýst áhuga sínum á verkefninu sem felur ekki einungis í sér strenginn heldur einnig umtalsverða fjárfestingu í íslenska orkukerfinu til að tryggja afhendingaröryggi og miðlun raforku um allt land.“
Aðspurður hvort Atlantic Superconnection telji sig geta lagt sæstreng án samþykkis íslenskra stjórnvalda sagði Truell svo ekki vera. „Slíkt er hvorki mögulegt né æskilegt að okkar mati. Það er íslenskra stjórnvalda að ákveða hvort strengur verður lagður til Íslands.“