Mynd: Birgir Þór Harðarson

Íslenskra stjórnvalda að ákveða hvort strengur verði lagður til Íslands

Edmund Truell, sem vill leggja sæstreng til Íslands, segir það ekki mögulegt né æskilegt að leggja hann án samþykkis íslenskra stjórnvalda. Hann segist hafa hitt ráðherra í núverandi ríkisstjórn til að kynna verkefnið en engir samningar liggi fyrir um orkukaup.

Atlantic Superconnection, sem stefnt hefur að því að leggja sæstreng milli Íslands og Bretlands, telur það hvorki mögulegt að æskilegt að leggja slíkan streng án samþykkis íslenskra stjórnvalda. Edmund Truell, sem fer fyrir fyrirtækinu, segir að í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans að það sé „ íslenskra stjórnvalda að ákveða hvort strengur verður lagður til Íslands.

Breska dagblaðið The Times fjallaði um áform Truell og Atlantic Superconnection á mánudag. Þar kom fram að Truell vilji að bresk stjórnvöld gefi grænt ljós á framkvæmdir sem geri Bretum kleift að sækja raforku til Íslands með lagningu rúmlega 1.000 kílómetra sæstrengs. Í þeirri umfjöllun kom einnig fram að öll fjármögnun lægi fyrir og að einungis vanti samþykki breskra stjórnvalda.

Í svari sínu við skriflegri fyrirspurn Kjarnans um málið segir Truell að forsenda þess að fjármögnun klárist sé að bresk stjórnvöld veiti staðfest samþykki fyrir því að Atlantic Superconnection vinni að þessu verkefni fyrir þeirra hönd. „Ef samþykki fæst þaðan og íslensk stjórnvöld lýsa áhuga á kanna verkefnið frekar þá er Atlantic Superconnection sannfært um að fjármögnun náist enda hafi 25 bankar og fjárfestar lýst áhuga sínum á verkefninu sem felur ekki einungis í sér strenginn heldur einnig umtalsverða fjárfestingu í íslenska orkukerfinu til að tryggja afhendingaröryggi og miðlun raforku um allt land.“

Hafa hitt ráðherra í sitjandi ríkisstjórn

Fulltrúar Atlantic Superconection hafa átt í samskiptum við núverandi ríkisstjórn frá því að hún tók við völdum síðla árs 2017, samkvæmt Truell. „Að okkar ósk hittu fulltrúar Atlantic Superconnection ráðherra og/eða starfsmenn fjögurra ráðuneyta á árinu 2018 til að kynna fyrir þeim hugmyndir sínar um verkefnið. Þeir fundir eins og allir aðrir sem haldnir hafa verið í gegnum árin voru til upplýsingar og kynningar og eru án nokkurra skuldbindinga af hálfu íslenskra stjórnvalda.“

Truell segir að fundirnir hafi verið haldnir til að hægt væri að kynna fyrir íslenskum stjórnvöldum hugmyndir Atlantic Superconnection varðandi fýsileika verkefnisins og hvernig það gæti litið út ef það yrði kannað frekar. „Fundirnir voru einkum til að kynna hugmynd um einpóla streng sem er umtalsvert minni en tvípólastrengur sem var fjallað um í kostnaðar- og ábatagreiningunni árið 2016. Benda má á að Morgunblaðið fjallaði um þessa útgáfu strengsins 14. júní 2018. Við þetta má bæta Atlantic Superconnection hefur, á undanförnum tveimur til þremur árum, haldið ótal kynningarfundi með hagsmunaaðilum á Íslandi, orkugeiranum, þingmönnum flest allra þingflokka, fulltrúum stjórnvalda, hagsmunasamtökum, umhverfissamtökum og svo mætti lengi telja. Allir fundirnir hafa verið í sama tilgangi, að kynna hugmyndina og kosti hennar fyrir íslenskt samfélag. Engir fundir eða samskipti hafa átt sér stað á þessu ári.“

Aðspurður hvort Atlantic Superconnection telji sig geta lagt sæstreng án samþykkis íslenskra stjórnvalda segir Truell svo ekki vera. „Slíkt er  hvorki mögulegt né æskilegt að okkar mati. Það er íslenskra stjórnvalda að ákveða hvort strengur verður lagður til Íslands.“

Ekkert samkomulag um orkukaup

Truell reyndi að kaupa hlut í HS Orku seint á síðasta ári. Þá bauð svissneskt fjárfestingafélag sem hann fer fyrir, Disruptive Capital Renewable Energy AG, rúma níu milljarða króna í 12,7 prósent hlut fjárfestingarsjóðsins ORK í HS Orku. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans voru vandkvæði með að klára fjármögnun á kaupunum og á endanum steig Jarðvarmi, félag í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, inn í og keypti ORK-hlutinn á 8,8 milljarða króna. Jarðvarmi eignaðist síðar tímabundið allt hlutafé í HS Orku en seldi helming þess áfram til breska félagsins Ancala Partners fyrr í þessum mánuði.

Þrátt fyrir að Truell hafi mikinn áhuga á að leggja sæstreng milli Íslands, sem tilheyrir orkuregluverki Evrópusambandsins, og Bretlands er Truell einarður stuðningsmaður Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, líkt og sjá má á myndbandinu hér að neðan.

Truell segir að Atlantic Superconnection hafi ekki gert neitt samkomulag við orkufyrirtæki á Íslandi um að selja félaginu orku til að flytja um sæstreng, enda sé það ekki tímabært. Hann telji þó að þær fimm til sex TWst. sem þurfi til að gera einpóla streng fjárhagslega hagkvæman verði til staðar ef strengurinn yrði að veruleika. „Má þar benda á að kostnaðar- og ábatagreining sem Kvika og finnska fyrirtækið Pöyry gerðu fyrir verkefnisstjórn um sæstreng árið 2016, sýndi fram á að búast mætti við að meðaltali verði 1,5 TWst til reiðu við tengingu íslenska orkukerfisins við streng. Það er óstöðug orka sem annaðhvort rennur til sjávar á yfirfalli eða er seld á lágmarksverði. Enn fremur bendir skýrslan á að hægt væri að auka vatnsorkuframleiðslu um 448 MW með stækkun og betri nýtingu núverandi virkjana.“

Truell segir auk þess að áhugaverð tækifæri séu í jarðvarma og djúpborunum sem verði enn frekar hagkvæm við tengingu við streng. Þá séu áhugaverð vindorkuverkefni í bígerð. „Svo má að lokum nefna að verði einhver þeirra stóriðjuverkefna sem hafa verið í bígerð ekki að veruleika eða hætti einhver núverandi stóriðja starfsemi þá verður strengurinn bráðnauðsynlegur til að taka á móti orku. Hin sérstaka staða íslands þar sem þrjú erlend stórfyrirtæki kaupa 72 prósent af allri orku á Íslandi hlýtur að vera áhættuþáttur fyrir þjóðarbúið. Sæstrengur myndi bæta samningsstöðu Íslands til muna og gera það minna háð þessum fyrirtækjum.“

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar