Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, fjallar um vandi innanlandsflugsins í stöðuuppfærslu á Facebook í dag. Hann segir að það verði alltaf snúið að halda gangandi greiðum samgöngum í svo stóru og strjálbýlu landi þar sem svo stór hluti þjóðarinnar býr á einu svæði en aðrir hafa dreifst víða um land.
„Fólkið í hinum dreifðu byggðum á sinn rétt á aðgangi að stjórnsýslu og þjónustu, menningarstofnunum í eigu þjóðarinnar og þar fram eftir götunum – þó að auðvitað sé það svo að nú á nettengdum tímum sé bæði auðveldara að sækja þjónustu og sinna þjónustu hvar á landinu sem maður býr. Vinnustaðurinn er að miklum hluta í tölvunni hjá stórum hluta landsmanna, hvort sem við störfum við bókhald, bílaviðgerðir, kennslu eða hjúkrun,“ skrifar hann.
Hann telur þó að innanlandsflugið eigi við djúpstæðan vanda að stríða. „Það er of dýrt – eða kannski er of ódýrt að aka einn í bíl landshluta á milli? Það hlýtur, hvað sem öðru líður, að vera umhugsunarefni, að við skulum vera að koma út úr mestu ferðamannavertíð Íslandssögunnar, þar sem peningar hafa beinlínis hrúgast inn í landið, að ekki hafi tekist að nýta neitt að kalla af því fjármagni til að byggja upp til dæmis alþjóðaflugvöll á Akureyri eða vegakerfið að gagni.“
Á varðbergi gagnvart stórfelldum niðurgreiðslum
Guðmundur Andri bendir á að orkuskipti gegni mikilsverðu hlutverki. Rafvæðing flugsins hljóti að vera væntanleg innan skamms – Norðmenn séu þegar með plan um það – og þá breytist allar forsendur um það kolefnisspor sem flugið veldur og geri að verkum að sumir, þar á meðal hann, séu á varðbergi gagnvart stórfelldum niðurgreiðslum. „Það þarf að fjölga stórkostlega hleðslustöðvum um allt land og gera rafbílinn að miklu vænlegri kosti en olíuknúin farartæki.“
Hann veltir því jafnframt fyrir sér hvort Íslendingar verði ekki að fara að temja sér annan hugsunarhátt gagnvart ökutækinu og almenningssamgöngum. „Það er ekki minnkun að því að nýta sér þær heldur þvert á móti; fólk á að vera hreykið af því að nýta sér þær,“ skrifar hann.