Alls eru ríflega 400 íbúðir í eigu Heimavalla skilgreindar eða verða skilgreindar til sölu í nánustu framtíð. Bókfært virði þeirra er um 14,5 milljarðar króna og áætlað er að sala þeirra muni losa allt að fjóra milljarða króna í umfram eigið fé. Því eigið fé verður skilað til hluthafa með endurkaupum á hlutabréfum í Heimavöllum eða með arðgreiðslum.
Þetta kom fram í fjárfestakynningu vegna hálfs árs uppgjörs Heimavalla sem birt var á föstudag. Á hluthafafundi í Heimavöllum sem haldinn var á föstudag var samþykkt að uppfæra endurkaupaheimild félagsins þannig að því verði heimilt að kaupa allt að þrjú prósent í sjálfu sér af hluthöfum á næstu átta mánuðum.
Heimavellir munu eiga alls um 1.700 íbúðir í lok þessa árs en þeim á að fækka með eignasölum í um 1.400 fyrir lok árs 2020.
Reynt að afskrá eftir ár
Heimavellir voru skráðir á markað vorið 2018. Ári síðar reyndu lykilhluthafar að afskrá félagið, en Kauphöll Íslands kom í veg fyrir það. Þær skýringar voru gefnar fyrir þeirri vegferð að Heimavellir hafi ekki fengið góðar móttökur hjá stærstu fjárfestum landsins, sérstaklega lífeyrissjóðum, og að endurfjármögnunartilburðir Heimavalla hafi ekki staðið undir væntingum.
Verðmat sýndi mun hærra virði eigna
Markavirði Heimavalla í dag er um 13,5 milljarðar króna. Eigið fé félagsins, munurinn á skuldum og eignum þess, er hins vegar mun hærri tala eða 18,8 milljarðar króna.
Á blaðsíðu þrjú í áðurnefndu verðmati Arctica Finance, sem hluti hluthafa Heimavalla höfðu aðgang að og er kyrfilega merkt trúnaðarmál, kom fram að Arctica Finance meti eignir Heimavalla á mun hærra verði en gert sé í birtum reikningum þess og að fyrirtækið telji að eigið fé Heimavalla miðað við sitt mat hafi átt að vera 27 milljarðar króna í vor. Því skeikaði um 14 milljörðum króna á matsverði Heimavalla og markaðsvirði félagsins á þeim tíma og eftir umtalsverðu að slægjast ef hægt yrði að afskrá félagið ódýrt en selja svo eignir þess jafnt og þétt.
Það tókst hins vegar ekki og nú ætlar félagið að selja eignir og hratt og greiða hluthöfum sínum afrakstur þess.