Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir dómsmálaráðherra lítur því svo á að beiting dagsekta í umgengnismálum skili þeim árangri í flestum tilvikum að umgengni sé komið á í samræmi við úrskurð, dóm, dómsátt eða staðfestan samning.
Þetta kemur fram í svari ráðherrans við fyrirspurn frá Höllu Gunnarsdóttur, varaþingmanns Vinstri grænna, um dagsektir í umgengnismálum.
Í svarinu kemur jafnframt fram að fjórir einstaklingar hafi þurft að greiða dagsektir á grundvelli úrskurða sýslumanns vegna umgengnismála á árunum 2014 til 2018. Þá hafi 329 kröfur um beitingu dagsekta samkvæmt heimild í barnalögum til að þvinga fram umgengni verið settar fram á þessum fjórum árum.
Dagsektir að jafnaði ekki greiddar
Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu eru dagsektir sem lagðar eru á með úrskurði að jafnaði ekki greiddar. Samkvæmt embættinu fer sýslumaður ekki sjálfkrafa af stað með innheimtu dagsekta þegar hann hefur kveðið upp úrskurð um álagningu dagsekta, en krafa um innheimtu þarf að koma fram frá þeim sem vill knýja fram umgengni.
Hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hafa dagsektir verið ákveðnar til 100 daga í senn. Í tveimur tilvikum, fram til ársins 2019, hafa verið greiddar 1.000.000 krónur í dagsektir. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á Suðurlandi var úrskurðað um að foreldri bæri að greiða dagsektir í 100 daga eða þar til látið hefði verið af tálmunum.
Dagsektir að hámarki 30.000 krónur á dag
Í svarinu kemur enn fremur fram að samkvæmt barnalögum hafi sýslumaður heimild til að úrskurða um dagsektir að hámarki 30.000 krónur á dag þar til látið er af tálmunum, en að hámarki í 100 daga í senn. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumannsembættum sé í málsmeðferðinni kallað eftir gögnum sem veita upplýsingar um fjárhag og félagslega stöðu foreldra og upphæð dagsekta hagað í samræmi við það að þær séu líklegar til að viðkomandi láti af tálmunum. Ákvæðinu sé beitt af meðalhófi, en forðast sé að hafa dagsektir hærri en nauðsyn krefur.
Þá sé gagnaðila gefinn kostur á að leggja fram gögn um fjárhag sinn áður en upphæð dagsekta sé ákveðin. Litið sé til þess hversu einbeittur vilji sé til þess að tálma umgengni og í því sambandi sé litið til þess hvort áður hafi verið lagðar dagsektir á sama aðila. Áfallnar dagsektir falli niður þegar sýslumaður telji að látið hafi verið af tálmunum.
Fjórtán tilkynningar til barnaverndarnefndar
Þá kemur fram hjá ráðherra að samkvæmt sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hafi 13 tikynningar verið sendar til barnaverndarnefndar á árunum 2016 til 2018. Samkvæmt sýslumanninum á Suðurlandi var send tilkynning til barnaverndarnefndar í því máli sem kveðinn var upp úrskurður um dagsektir.
„Þau úrræði sem til staðar eru í barnalögum þegar annað foreldri kemur í veg fyrir umgengni foreldris og barns eru í fyrsta lagi dagsektir og í öðru lagi krafa um aðför. Í 48. gr. barnalaga, nr. 76/2003, kemur fram að umgengni við barn samkvæmt úrskurði, dómi, dómsátt foreldra eða samningi þeirra, staðfestum af sýslumanni, verði þvinguð fram með dagsektum tálmi sá sem hefur forsjá barns hinu foreldrinu eða öðrum sem eiga umgengnisrétt við barnið að neyta hans. Samkvæmt 33. gr. a barnalaga er foreldrum skylt að leita sátta áður en krafist er úrskurðar um dagsektir og höfðað er mál um aðför,“ segir í svarinu.
Láti forsjárforeldri af tálmunum er tilgangi þvingunaraðgerða náð
Þá fjallar ráðherra um athugasemd í greinargerð við 48. grein barnalaga í frumvarpi til núgildandi barnalaga en þar kemur meðal annars fram að mikilvægt sé að hafa í huga að markmið dagsekta og annarra þvingunaraðgerða sé að koma umgengni samkvæmt lögmætri ákvörðun á, það er að knýja fram efndir á ákvörðuninni.
„Láti forsjárforeldri af tálmunum sé tilgangi þvingunaraðgerða náð. Dagsektarúrskurður sé þá ekki lengur aðfararhæfur og dagsektirnar falli niður. Greiddar dagsektir verða þó ekki endurgreiddar þótt látið sé af tálmunum síðar.“
Þá segi í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til breytinga á barnalögum er varðar umgengnistálmanir að leggja verði áherslu á að þegar svo háttar til að umgengnisúrskurði sé ekki framfylgt af hálfu foreldris sem barn býr hjá og grípa þurfi til aðgerða af hálfu yfirvalda til að koma á umgengni vegist á tvenns konar hagsmunir. Annars vegar sé um að ræða hagsmuni barns og foreldris af því að njóta umgengninnar og hins vegar hagsmuni barns af því að framkvæmd umgengninnar valdi því ekki of miklum erfiðleikum eða skaða.
Málin flókin og erfið
„Lögfesting og framkvæmd þvingunarúrræða verði að taka mið af þeirri hættu sem geti verið samfara því fyrir barn að þvinga fram umgengni með tilteknum ráðum. Skilyrði fyrir beitingu þvingunar samkvæmt ákvæðum laganna sé fyrst og fremst að úrskurðaraðili hafi komist að þeirri niðurstöðu að foreldri sem barn búi hjá tálmi umgengni. Þá kemur fram að mikilvægt sé að undirstrika að þau mál þar sem reyni á þvingun séu flókin og erfið.
Þar sé nær undantekningarlaust um að ræða djúpstæðan eða langvarandi ágreining foreldra sem geti átt sér ýmsar orsakir og reynst mjög erfitt að leysa. Ágreiningur af þessu tagi hafi alltaf áhrif á barnið sem eigi í hlut og barnið finni sig oft knúið til að taka afstöðu. Þá kemur jafnframt fram að viðurlög séu nauðsynleg til þess að reyna að tryggja að barn fari ekki á mis við þá umgengni sem gagnast barninu best. Með viðurlögum sé einnig undirstrikað að tálmun sé brýnt brot á forsjárskyldum foreldris. Hörð framganga í þvingunarmálum eða refsikennd viðurlög geti hins vegar aukið deilu foreldra til muna til skaða fyrir barnið. Þung viðurlög eða harkalegar afleiðingar við umgengnisbrotum geti einnig dregið úr líkum á því að foreldri lýsi réttmætum áhyggjum af umgengni þegar það á við og að barn njóti nauðsynlegrar verndar,“ segir í svarinu.
Telja að dagsektarmál skili þeim árangri í umgengnismálum sem að er stefnt
Þá kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu ljúki miklum meiri hluta dagsektarmála á annan hátt en með úrskurði sýslumanns. Önnur málalok en úrskurður séu oft til marks um að umgengni hafi komist á að nýju eða að minnsta kosti að þokast hafi í átt að samkomulagi milli foreldra, eftir atvikum með beitingu sáttameðferðar, eða öðrum úrræðum sem sýslumaður getur beitt við meðferð þessara mála. Dagsektamál falli í sumum tilvikum niður sökum þess að málshefjandi hættir að sinna þeim og megi ætla að í einhverjum þeirra tilvika hafi umgengni komist á að nýju.
Í þeim tilvikum þar sem umgengni hefur komist á að nýju, í kjölfar þess að beiðni um dagsektir hefur verið lögð fram, verði að mati embættisins að ætla að beiting úrræðisins hafi skilað árangri. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á Suðurlandi, með vísan til fyrirliggjandi tölfræði hjá embættinu, verður rekstur dagsektarmáls í yfirgæfandi fjölda tilfella til þess að umgengni kemst á, dagsektarmál falla niður í kjölfarið og ekki komi til úrskurðar nema í undantekningartilfellum.
Þegar litið sé til þessa sé að mati embættisins tvímælalaust hægt að draga þá ályktun að dagsektarmál skili þeim árangri í umgengnismálum sem að sé stefnt. Hins vegar verði að líta til þess að í þeim undantekningartilfellum sem úrskurðað sé um dagsektir í umgengnismálum virðist dagsektirnar sjálfar ekki endilega skila tilætluðum árangri. Hagur forsjárforeldra geti jafnframt skipt miklu máli, til dæmis ef forsjárforeldri er eignalaust eða efnamikið.