Héraðsdómar landsins kváðu upp 489 gæsluvarðhaldsúrskurða í fyrra en það er nær tvöfalt fleiri úrskurðir en fjórum árum áður þegar 257 úrskurðir voru kveðnir upp. Enn meiri aukning var þó í farbannsúrskurðum en slíkir úrskurðir þrefölduðust á fjórum árum. Árið 2015 voru 69 slíkir úrskurðir kveðnir upp en í fyrra voru þeir 214.
Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata.
Gæsluvarðhaldsúrskurðum fjölgað verulega
Á vef héraðssaksóknara segir að gæsluvarðhald sé tímabundin frelsissvipting sem lögregla geti beitt í þágu rannsóknar eða meðferðar sakamáls á grundvelli dómsúrskurðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Gæsluvarðhald er ekki afplánun en kemur að jafnaði til frádráttar fangelsisrefsingu ef viðkomandi er dæmdur til fangelsisrefsingar í kjölfar gæsluvarðhalds.
Mikil aukning hefur orðið í gæsluvarðhaldsúrskurðum á síðustu árum. Héraðdómar landsins kváðu upp 489 gæsluvarðhaldsúrskurði í fyrra, 449 árið áður, árið 2016 voru þeir 343, þeir voru 338 árið 2015 og 257 árið 2014.
Dómari getur jafnframt úrskurðað sakborning í farbann í stað þess að úrskurða hann í gæsluvarðhald. Farbannsúrskurðir hafa einnig aukist á síðustu árum en á síðasta ári voru kveðnir upp alls 214 farbannsúrskurðir í héraðsdómstólum landsins. Voru úrskurðirnir 85 árið 2017, 137 árið 2016 og árið 2015 voru þeir 69.
Fram kemur í svari dómsmálaráðherra að um sé að ræða fjölda gæsluvarðhalds- og farbannsúrskurða en ekki fjölda einstaklinga þar sem hægt sé að úrskurða sama einstakling endurtekið í gæsluvarðhald eða farbann.
Fékk ekki svar um þjóðerni eða brotaflokka
Þórhildur Sunna óskaði jafnframt eftir upplýsingum um brotaflokka, þjóðerni þeirra sem úrskurður beindist að og lagaákvæðum sem úrskurður var reistur á.
Í svari dómsmálaráðherra segir hins vegar að til þess að nálgast slíkar upplýsingar þyrfti að skoða hvern og einn úrskurð og að slík vinna yrði of umfangsmikil til að svara fyrirspurninni í stuttu máli.