Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, mbl.is og K100, tapaði 415 milljónum króna í fyrra. Þetta er staðfest í frétt sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Kjarninn hafði greint frá því 10. ágúst síðastliðinn að lesa mætti það út úr ársreikningi eins stærsta hluthafa eiganda Árvakurs að tapið hefði verið um 414 milljónir króna.
Árvakur hefur glímt við mikinn hallarekstur á undanförnum árum og hluthafar þess hafa ítrekað þurft að leggja útgáfunni til fé.
Frá því að nýir eigendur tóku við rekstrinum árið 2009 og fram til loka árs 2018 tapaði félagið um 2,2 milljörðum króna miðað við ofangreinda útreikninga á tapi Árvakurs í fyrra. Tapið eykst umtalsvert á milli ára, en Árvakur tapaði 284 milljónum króna árið 2017.
Í frétt Morgunblaðsins er haft eftir Haraldi Johannessen, framkvæmdastjóra Árvakurs og annars ritstjóra Morgunblaðsins, að rekstrarumhverfið sé erfitt en að búið sé að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir til að hagræða í rekstri félagsins sem séu farnar að skila árangri. „Samkeppnin við Ríkisútvarpið hefur orðið sífellt erfiðari, en neikvæð umræða á vinnumarkaði, sem enn heldur áfram þó að stærstu aðilar á vinnumarkaðnum hafi samið, hefur auk stórra áfalla í atvinnulífinu haft verulega neikvæð áhrif á auglýsingamarkaði og þar með á rekstur fjölmiðla.“
Hlutafé aukið í byrjun árs
Kjarninn greindi frá því í febrúar síðastliðnum að hlutafé í Þórsmörk, eiganda Árvakurs, hefði verið aukið um 200 milljónir króna þann 21. janúar 2019. Auk þess var samþykktum félagsins breytt á þann veg að stjórn þess er heimilt að hækka hlutaféð um allt að 400 milljónir króna til viðbótar með útgáfu nýrra hluta. Sú heimild gildir til ársloka 2019.
Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja lögðu til 80 prósent þeirra 200 milljóna króna sem settar voru inn í rekstur Árvakurs. Alls lögðu þessar tvær blokkir til 160 milljónir króna af milljónunum 200. Þær 40 milljónir króna sem upp á vantaði dreifðust á nokkra smærri hluthafa en enginn nýr hluthafi bættist í hópinn við hlutafjáraukninguna.
Alls tóku fimm skráðir hluthafar ekki þátt í hlutafjáraukningunni og minnkaði hlutfallsleg eign þeirra samhliða henni. Á meðal þeirra var félagið Ramses II ehf., í eigu Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn Reykjavíkur. Eignarhlutur Ramses hefur skroppið saman úr 22,87 prósentum í 20,05 prósent. Stundin hefurgreint frá því að Eyþór hafi keypt hlut sinn í Árvakri með 325 milljón króna kúluláni frá félagi í eigu Samherja. Þar hefur meðal annars komið fram að Eyþór hafi aldrei viljað upplýsa um hvernig hann hafi fjármagnað kaupin á hlutnum og sagt að viðskiptin væru trúnaðarmál.
Flestir minni eigendur Þórsmerkur eru tengdir sjávarútvegsfyrirtækjum.
Færðu niður hlutaféð um milljarð
Frá því að nýir eigendur tóku við Árvakri árið 2009 hafa þeir lagt félaginu til rúmlega 1,6 milljarð króna. Þar af nemur framlagt hlutafé KS um 324 milljónum króna og framlagt hlutafé tveggja félaga sem tengjast Ísfélaginu um 484 milljónum króna. Annað þeirra er félagið Hlynur A en hitt er Ísfélagið sjálft.
Í maí síðastliðnum var ákveðið að lækka hlutafé í Þórsmörk um einn milljarð króna. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskráar var það gert til jöfnunar á tapi.
Við það lækkaði hlutafé Þórsmerkur úr 1,6 milljarði króna í 606 milljónir króna. Það þýðir að eigendur félagsins hafa afskrifað milljarð af því fjármagni sem þeir settu inn í félagið.
Eignarhald Þórsmerkur, eiganda Árvakurs, er eftirfarandi:
- Ramses II ehf., eigandi Eyþór Laxdal Arnalds, 20,05 prósent
- Íslenskar sjávarafurðir ehf., forsv.m. Sigurjón Rafnsson, 20,00 prósent
- Hlynur A ehf., forsv.maður Guðbjörg Matthíasdóttir, 16,45 prósent
- Ísfélag Vestmannaeyja hf., forsv.maður Stefán Friðriksson, 13,43 prósent
- Legalis sf., forsv.maður Sigurbjörn Magnússon, 12,37 prósent
- Rammi hf., forsv.maður Ólafur Marteinsson, 6,14 prósent
- Þingey ehf., forsv.maður Aðalsteinn Ingólfsson, 3,59 prósent
- Stálskip ehf., forsv.maður Halldór Kristjánsson, 3,08 prósent
- Brekkuhvarf ehf., forsv.maður Ásgeir Bolli Kristinsson, 2,05 prósent
- Fari ehf., forsv.maður Jón Pálmason, 1,54 prósent
- Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf., forsv.maður Einar Valur Kristjánsson, 1,30 prósent