Hrannar Pétursson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Fyrir er Hafþór Eide Hafþórsson aðstoðarmaður Lilju. Hrannar var aðstoðarmaður Lilju þegar hún gegndi embætti utanríkisráðherra á árunum 2016 til 2017. Þetta kemur fram í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Í tilkynningunni kemur fram að undanfarin ár hafi Hrannar starfað sjálfstætt, meðal annars við rekstrar- og almannatengslaráðgjöf. Áður hefur Hrannar starfað sem fréttamaður á Ríkisútvarpinu, sem framkvæmdastjóri mannauðs- og markaðsmála hjá Vodafone, og upplýsingafulltrúi álversins í Straumsvík. Hann hefur jafnframt starfað hjá forsætisráðuneytinu.
Í aðdraganda forsetakosninganna í mars 2016 tilkynnti Hrannar að hann hygðist bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Síðar hætti hann við framboðið í ljósi þess að Ólafur Ragnar Grímsson, sitjandi forseti, hefði ákveðið að bjóða sig fram á ný.