Icelandair hefur slitið áralöngu samstarfi sínu við Íslensku auglýsingastofuna, sem hefur séð um auglýsingar félagsins í rúma þrjá áratugi. Viðskipti Icelandair við stofuna voru vel á annað hundrað milljónir króna á ári. Frá þessu er greint á ferðaþjónustufréttavefnum Túrista.is.
Þar er haft eftir Ásdísi Ýri Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, að félagið hafi ákveðið að söðla um. Eftir að hafa leitað tilboða og hugmynda hjá fleiri auglýsingastofum hafi verið ákveðið að semja við Hvíta húsið. Gísli S. Brynjólfsson, sem var ráðinn markaðsstjóri Icelandair í vor, var áður framkvæmdastjóri Hvíta hússins og einn eigenda stofunnar. Hann þekkir því vel til þar innandyra.
Greint var frá því í gær að fjórum starfsmönnum hefði verið sagt upp hjá Brandenburg í síðustu viku vegna samdráttar.