„Ég vona að þú fáir tilfinningu fyrir þeim gildum sem okkur þykja kær hérlendis: Frelsi, fjölbreytni, alþjóðasamvinnu og virðingu hvort fyrir öðru.“ Þetta var með því fyrsta sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sagði við Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, þegar hann bauð hann velkominn til Íslands í Höfða rétt í þessu.
Guðni sagðist auk þess vonast til þess að Pence myndi njóta dvalarinnar og að hún myndi skilja hann eftir með tilfinningu um hversu mikið Íslendingar kunni að meta sterkt og heilbrigt samband þjóðarinnar við Bandaríkin.
Telur að samkynhneigð sé val einstaklingsins
Pence hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að vinna gegn réttindum samkynhneigðra. Birtingarmyndir þess hafa verið margar.
Til að mynda lítur hann svo á að samkynhneigð sé val sem gæti leitt til samfélagslegs hruns og að það sé vilji guðs að koma í veg fyrir slíka.
Þá samþykkti hann sem ríkisstjóri í Indíana umdeilda lagasetningu á sínum tíma um að til dæmis veitingahúsaeigendur mættu neita hinsegin fólki um afgreiðslu af trúarlegum ástæðum.
Guðni Th. bar einnig armband þegar hann hitti Mike Pence og virðist vera um sama armband, litríkt armband, að ræða og hann bar þegar forsetinn hitti Vladimir Pútín, forseta Rússlands, í apríl síðastliðnum. Margir hafa tengt það við baráttu hinsegin fólks fyrir auknum mannréttindum en upprunalega var armbandið gert fyrir Guðna Th. af Krafti, félags ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein. Á því stendur „Lífið er núna.”Pútin er þekktur fyrir andstöðu við samkynhneigð og fyrir að hafa þrengt verulega að réttindum hinsegin fólks í Rússlandi á valdatíma sínum. Samstaða Guðna Th. með hinsegin fólki á ekki að koma mikið á óvart enda gerðist hann verndari Samtakanna ´78 í fyrra.
Draga regnbogafánann að húni
Advania, sem er með höfuðstöðvar við hlið Höfða, flaggaði regnbogafánum hjá sér í dag og var þar augljóslega um samstöðuaðgerð að ræða vegna yfirlýstra skoðana varaforsetans á lífstíl og réttindum hinsegis fólks. Það sama gerði Reykjavíkurborg við starfsstöð sína við Höfðatorg.
Pence trúir enn fremur ekki á að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum og hefur hann ekki viljað svara því hvort hann trúi á þróunarkenninguna.
Ríkisstjórn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sem Pence er fulltrúi fyrir hérlendis hefur auk þess ráðist í nokkuð umfangsmikið tollastríð, sagði upp aðild Bandaríkjanna að Parísarsáttmálanum og aðild að kjarnorkusamningnum við Íran. Þessi atriði eru talin vera á meðal helstu ógna við alþjóðasamvinnu í heiminum í dag.