Mynd: Birgir Þór Harðarson

Forsetinn sem varð til í beinni útsendingu á RÚV og þjóðin elskar

Á meðan að traust hríðfellur gagnvart Alþingi og borgarstjórn, og mælist undir 20 prósent, er einn þjóðkjörinn fulltrúi sem flestir landsmenn eru ánægðir með. Það er forseti landsins sem nýtur trausts 83 prósent landsmanna. Fyrsta kjörtímabili hans lýkur á næsta ári og hann hefur enn ekki tilkynnt um hvort áframhald verði á því ástarsambandi sem myndast hefur milli manns og þjóðar.

Þann 30. desember 2015 birtist grein á Kjarnanum eftir sagnfræðinginn Guðna Th. Jóhannesson. Hún bar titilinn „Hvað er eiginlega að Ólafi Ragnari?“ Titillinn var leikur að orðum og tilgangur hans það að sýna hversu umdeildur Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti Íslands, væri. 

Í greininni sagði: „Margir eiga það því sameiginlegt að spyrja sig og aðra hvað sé eiginlega að Ólafi Ragnari Grímssyni. En fólk mælir nú sjaldnast einum rómi. Þjóð er ekki órofa heild og í þessum orðum skipta áherslur máli. Hvað er eiginlega að honum? spyrja þeir sem finnst forseti hafa setið nógu lengi á valdastóli, gamall valdakarl með sitthvað á samviskunni. Hins vegar eru þeir líka til sem spyrja: Hvað er eiginlega að forsetanum? Herra Ólafur hafi staðið sig vel, komið í veg fyrir Icesave og hugsanlega aðild að Evrópusambandinu.“

Tilefnið greinarinnar það að Ólafur Ragnar Grímsson hafði sagt að hann myndi greina frá því hvort hann sæktist eftir því að sitja sitt sjötta kjörtímabil, en hann hafði verið kosinn í embættið sumarið 1996.

Í henni sagði Guðni, sem hafði sérhæft sig í forsetalegri sagnfræði, meðal annars að það væri alls ekki útilokað að Ólafur Ragnar yrði aftur í framboði, þrátt fyrir að hann hefði áður sagt að svo yrði ekki. „Geri hann það virðist hann eiga sigurinn vísan. Önnur forsetaefni yrðu fallbyssufóður. Sitjandi forseti sigrar alltaf. Það segir sagan að minnsta kosti. Á hitt er þó að líta að einhvern tímann verður allt fyrst. Öflugur frambjóðandi sem stæði einn andspænis Ólafi gæti heldur betur velgt honum undir uggum.“

Í nýársávarpinu tilkynnti Ólafur Ragnar hins vegar að þetta væri orðið gott, hann yrði ekki í framboði í kosningunum sem fram fóru sumarið 2016.

Hver yrði næstur?

Miklar bollaleggingar hófust um hverjir myndu bjóða sig fram. Nöfn eins og Jón Gnarr, Katrín Jakobsdóttir, Andri Snær Magnason og Össur Skarphéðinsson voru hávær í umræðunni.

Í byrjun apríl 2016 breyttust hins vegar forsendur forsetakosninganna algjörlega þegar Panamaskjölin voru opinberuð, fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar leiddu til afsagnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra, og sú ríkisstjórn sem tók við lofaði þingkosningum um haustið.

Öll þessi atburðarás átti sér stað nánast í beinni útsendingu á RÚV. Þann 4. apríl, fyrir þremur árum síðan, hafði staðið til að halda stuttan aukafréttatíma til að fara yfir þá sögulega atburði sem voru að eiga sér stað. Þann dag flakkaði Sigmundur Davíð um höfuðborgarsvæðið með tösku sem innihélt skjal með ósk um þingrofsheimild. Hann fór meðal annars til fundar við Ólaf Ragnar og bar upp þá ósk, sem forsetinn hafnaði. Ólafur Ragnar hélt svo blaðamannafund í kjölfarið þar sem hann útskýrði hvað hefði átt sér stað.

Í setti hjá RÚV var Guðni Th. Jóhannesson í hlutverki sérfræðings og hann ílengdist í gegnum maraþonútsendinguna, leiddi þjóðina í gegnum fáránleika atburðana sem voru að eiga sér stað og sló í gegn.

Í kjölfarið fór áskorunum að rigna yfir Guðna um að bjóða sig fram til forseta.

Hættur við að hætta við

Ólafur Ragnar hafði hins vegar runnið á blóðlyktina og ákvað að hætta við að hætta við að bjóða sig aftur fram 18. apríl. Hann taldi þjóðina þurfa á sér að halda „í þessu umróti óvissu og mótmæla.“

Í fyrstu skoðanakönnun sem gerð var eftir þetta mældist Ólafur Ragnar með 53 prósent stuðning. En þrýstingur á Guðna um framboð hélt áfram. Í könnun sem birt var í byrjun maí var enginn marktækur munur á stuðningi við hann og Ólaf Ragnar. 51 prósent sögðust vilja Guðna, sem hafði ekki tilkynnt um framboð, sem forseta en tæp 49 prósent Ólaf Ragnar.

Ólafur Ragnar rataði svo í vandræði í byrjun maí þegar Kjarninn greindi frá beinum tengslum eiginkonu hans, Dorritar Moussaieff, við aflandsfélög. Ólafur hafði áður neitað því afdráttarlaust á CNN að fjölskylda hans hefði nokkur tengsl við slík.

Þann 5. maí tilkynnti Guðni svo um framboð sitt.

Davíð mætir

Þremur dögum síðar æstust leikar enn frekar þegar Davíð Oddsson, fyrrverandi borgarstjóri, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, seðlabankastjóri og formaður Sjálfstæðisflokksins, og þáverandi og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, ákvað að bjóða sig líka fram.

Daginn eftir það tilkynnti Ólafur Ragnar að hann væri hættur við að hætta við að hætta. Opinbera skýringin var að Guðni og Davíð væru nægilega frambærilegir frambjóðendur til að hann gæti stigið af sviðinu. Þeim væri treystandi.

Ljóst varð strax að Guðni hafði kosningabaráttuna í hendi sér. Hann mældist strax með feikilega yfirburði í könnunum og með langmest fylgi þeirra níu sem enn voru í framboði eftir að framboðsfrestur rann út.

Hann þótti reka nokkuð litlausa og örugga kosningabaráttu sem einkenndist af því að reyna að gera ekki mistök á meðan að Davíð lagðist í drullukast og reyndi eftir fremsta megni að draga Guðna, sem hann taldi sinn helsta andstæðing, þangað niður til sín. Á vígvöll sem Davíð þekkir vel.

Á endanum vann Guðni nokkuð öruggan sigur og varð við það sjötti forseti Íslands. Hann fékk 39,1 prósent atkvæða. Davíð varð fjórði á eftir Guðna, Höllu Tómasdóttur og Andra Snæ Magnasyni með 13,7 prósent atkvæða þrátt fyrir að hafa rekið dýrustu kosningabaráttuna. Á endanum kostaði hvert atkvæði sem Davíð fékk hann 1.103 krónur.

„Minn sigur var varnarsigur í ljósi þróunarinnar,“ sagði Guðni hógvær í útvarpsviðtali skömmu eftir kosningarnar.

Samstöðuforsetinn

Guðni Th. Jóhannesson tók svo formlega við embætti forseta Íslands 1. ágúst 2016 við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu. Hann hóf ræðu sína á því að þakka fyrir traustið sem honum hafi verið sýnt með kjör­inu í emb­ættið og sagð­ist taka við því með auð­mýkt í hjarta. „Ég mun og vil þiggja ráð og leið­sögn frá ykkur öll­um, fólk­inu í land­in­u.“

Hann lauk ræðu sinni á því að segja að hann vildi að þjóðin stæði „saman um fjölbreytni og frelsi, samhjálp og jafnrétti, virð­ingu fyrir lögum og rétti. Stöndum saman um þessi grunn­gildi góðs samfélags, vongóð og full sjálfstrausts. Megi sú verða gæfa okkar um alla framtíð.“

Sjötti forseti Íslands og forsetafrúin við embættistökuna.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Nokkrum vikum síðar náðist mynd af honum fyrir utan Dominos-pizzastað þar sem hann var að sækja Megaviku-tilboð fyrir fjölskylduna. Hann flutti erindi á Hinsegin dögum fyrstur íslenskra forseta. Hann hafnaði launahækkun sem honum var skammtað í október 2016. Hann lét mynda sig með buff frá Alzheimer-samtökunum. Hann sýndi æðruleysi og þolinmæði við fordæmalausa erfiðleika við að mynda ríkisstjórn eftir þingkosningarnar 2016.

Og þetta voru einungis fyrstu mánuðirnir í starfi.

Mikil ánægja samkvæmt könnunum

Und­an­farin ár, áður en Guðni tók við emb­ætt­inu, höfðu á bil­inu 15-30 pró­­sent landsmanna sagst vera óánægð með störf Ólafs Ragn­­ars Gríms­­sonar sem for­­seta, en ánægjan með störf hans mæld­ist á bil­inu 45-64 pró­­sent. Mest mældist ánægjan með Ólaf Ragnar í febrúar 2013, þegar nýbúið var að kveða upp dóm í Icesave-málinu, og í síðustu mælingunni sem framkvæmd var áður en Ólafur Ragnar lét af embætti sumarið 2016.

Ánægja með störf Guðna er hins vegar miklu meiri. Í fyrstu könnun MMR um ánægju með forsetann sem framkvæmd var eftir að hann tók við sögðust 68,6 prósent vera ánægð með Guðna.

Þegar stuðningur við Guðna var kannaður í desember 2016 kom í ljós að 80 prósent aðspurðra voru ánægðir með störf hans. Þegar einungis var skoðað þá sem tóku afstöðu þá var stuðningur við hann 96 prósent.

Guðni fékk mikla athygli þegar hann setti á sig buff frá Alzheimer-samtökunum. Hún var bæði jákvæð og neikvæð. Hann brást við með því að endurtaka leikinn hjá Rauða krossinum skömmu síðar.
Mynd: Aðsend.

Þannig hefur stuðningurinn verið nær sleitulaust síðan. Í nýjustu mælingu MMR, sem birt var 9. apríl síðastliðinn, sagðist 81,6 prósent þjóðarinnar vera ánægð með störf forseta síns. um 93,5 prósent þeirra sem tóku afstöðu voru sáttir með hann.

Landsmenn treysta ekki stjórnmálamönnum, bara Guðna

Ljóst er að Guðni er því forseti sem nær að sameina þjóðina á sama tíma og fordæmalaust rót hefur verið í íslenskum stjórnmálum, sem skilað hefur því að átta flokkar eru nú á Alþingi íslendinga og í borgarstjórn Reykjavíkur.

Hann er eini kjörni fulltrúi þjóðarinnar sem virðist njóta trausts þvert á flokka og aðrar grundvallarmeiningar. Á sama tíma og traust á Guðna er í svimandi og nánast óhugsandi hæðum – í kringum 80 prósent – þá hefur það fallið skarpt gagnvart öðrum stofnunum þar sem kjörnir fulltrúar sitja.

Í þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var í febrúar kom í ljós að traust á Alþingi hafði hrunið úr 29 prósent í 18 prósent milli ára. Traust til borgarstjórnar Reykjavíkur mældist í sömu könnun 16 prósent, en hafði verið 24 prósent árið áður. Traust til embættis forseta Íslands mældist 83 prósent í þessari könnun Gallup. Það jókst milli ára.

Ofbauð Klausturmálið

Guðni hefur ekki gefið kost á mörgum stórum viðtölum síðan að hann tók við embætti. Hann gaf þó kost á einu slíku í desember síðastliðnum þegar hann ræddi við Fanneyju Birnu Jónsdóttur, stjórnanda Silfursins.

Umræðuefnið var að stórum hluta traust, sérstaklega í kjölfar hins víðfræga Klaustursmáls. Guðni sagði að honum hefði ofboðið talsmáti þeirra þingmanna sem sátu að drykkju á Klausturbarnum 20. nóvember 2018. Hann sagði að þingmennirnir hefðu gerst sekir um virð­ing­ar­leysi og sjálfs­upp­hafn­ing­u „Þetta er ekki leiðin til auka traust almenn­ings á Alþingi. Að við­hafa svona orð­færi sem er til merkis um ein­hvern und­ir­liggj­andi vanda. Manni ofbauð, það er ekk­ert flókn­ara en það.“  

Guðni sagði þetta ekki leiðina til að auka traust almennings á Alþingi og að það væri mikilvægt fyrir alla að reyna standa sig vel í vinn­unni, sér­stak­lega þá sem eru í þjóð­kjörnum stöð­um. „En ég held að það yrði ekki til fram­dráttar góðum mál­stað ef ég færi að setja mig á afskap­lega háan stall og segja öðrum til synd­anna. En um leið leyfir maður sér að vona að fólk finni hjá sjálfu sér hvað það hefur gert og hvernig beri að bregð­ast við.“

Hefur ekki beitt synjunarvaldinu

Ólafur Ragnar markaði sér þá sérstöðu á meðal íslenskra forseta að hann beitti synjunarvaldi, neitaði þrívegis að skrifa undir lög sem honum bárust frá Alþingi til undirskriftar. Það hafði enginn forseti gert áður og Guðni hefur heldur ekki beitt því valdi.

Í viðtali við Kjarnann skömmu eftir að hann tilkynnti um framboð sitt til forseta sagði Guðni að hann væri þó tilbúinn að glíma við synjun laga. „Það hefur skapast nýr raunveruleiki á Bessastöðum,“ sagði hann um það að Ólafur Ragnar hefði vakið synjunarvaldið upp úr því að vera álitið dauður bókstafur. Frá því yrði ekki snúið.

Guðni hafði þó líka sterkar skoðanir á því hvar synjunarvaldið ætti að liggja. „Við þurfum að koma því í stjórnarskrá að tiltekinn hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis um umdeild mál. Þarna ætla ég beinlínis að beita mér því þetta lítur svo beint að störfum forseta.“

Á þeim árum sem Guðni hefur setið í embætti þá hefur verið skorað á hann nokkrum sinnum að beita synjunarvaldinu. Rúmum mánuði eftir að hann tók við skrifaði Guðni undir búvörulög og við það tóku umdeildir nýir búvörusamningar gildi. Undirskriftasöfnun hafði verið hrundið af stað til að reyna að fá forsetann til að hafna lögunum.

Sumarið 2017 var skorað á hann að staðfesta ekki stjórnarathafnir Alþingis vegna skipunar 15 dómara við Landsrétt. Forsetinn sendi þá frá sé sérstaka yfirlýsingu þar sem hann rökstuddi ákvörðun sína, en skrifaði samtímis undir.

Nú stendur hann frammi fyrir því að þrýst verður á forsetann að skrifa ekki undir lög sem innleiða hinn svokallaða þriðja orkupakka inn í íslenska löggjöf. Félagasamtökin Orkan okkar eru sem stendur að safna undirskriftum vegna þessa.

Guðni virðist þó yfirvegaður yfir stöðunni. Þann 9. apríl tók hann þátt í pallborðsumræðum um norðurslóðamál í Rússlandi og ákvað að flytja hluta tölu sinnar á rússnesku.


Uppátækið sló í gegn í Rússlandi. Forsetinn sem Íslendingar elska felur vel í kramið víðar.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar