Fréttatíminn, miðill sem hefur hingað til ekki haft neinar tekjur, hefur hafið söfnun á styrkjum. Styrkjunum er safnað í gegnum Paypal-þjónustuna og eru því greiddir í Bandaríkjadölum. Í auglýsingu sem birtist þegar farið er inn á vefinn eru lesendur spurðir hvort þeir hafi áhuga á að hjálpa Fréttatímanum að vaxa og dafna? „Á síðustu mánuðum hafa innlit á Fréttatímann fjórfaldast og kostnaður í takt við það. Með því að styrkja Fréttatímann stuðlar þú að frjálsri og óháðri umfjöllun.“
Sú fullyrðing, að kostnaður hafi aukist, stangast á við það sem Guðlaugur Hermannsson, eigandi miðilsins, sagði við Kjarnann í síðustu viku. Þá sagði hann að Fréttatíminn væri fjölmiðill sem væri unninn í sjálfboðavinnu án eiginlegra starfsmanna. Þar vinni hvorki ritstjóri né blaðamenn þrátt fyrir að um skráðan fjölmiðil sé að ræða. Eini kostnaðurinn sem fylgdi rekstri miðilsins væru árlegur kostnaður vegna endurnýjunar á léni hans. Tekjur Fréttatímans eru engar. Guðlaugur sagði enn fremur að hann héldi úti vefnum í samstarfi við kollega, sem hann vildi ekki segja hverjir væru, en allt efni sem birtist á vef Fréttatímans er birt undir höfundinum „ritstjórn Fréttatímanns“.
Hann sagði að vel hafi verið tekið í þetta framtak, að halda úti Fréttatímanum, sérstaklega að undanförnu í tengslum við umræður um þriðja orkupakkann.
Í umfjöllun Kjarnans kom fram síðan að hinn nýi Fréttatími fór í loftið hafi verið birt mörg efni þar daglega, nú í á annað ár. Margt sem þar birtist er unnið með hætti sem stenst illa grundvallarreglur blaðamennsku, t.d. hvað varðar heimildaröflun og framsetningu. Auk þess er enginn blaðamaður skráður á vefnum og allt efni sem þar birtist skráð sem skrifað af „Ritstjórn Fréttatímanns“.
Það efni sem Fréttatíminn birtir er margskonar. Margt af því er unnið upp úr fréttatilkynningum sem sent er á alla íslenska miðla daglega. Sumt snýst um veðurfar. En það efni sem tekur mest pláss, og vekur mesta athygli, snýst um stjórnmál samtímans og er oft sett fram sem opnar spurningar í tengslum við mál sem eru ofarlega á baugi á hverjum tíma.
Mesta athygli hafa vakið fréttir sem tengjast þriðja orkupakkanum eða stjórnmálamönnum sem hafa tekið virkan þátt í umræðum um hann. Þannig birtist frétt á fimmtudag í síðustu viku undir fyrirsögninni: „Skilar orkupakki 3, 625 milljónum í vasa utanríkisráðherra?“ Efnislega snýst fréttinn um að uppreikna mögulegar tekjur af virkjun sem hefur ekki verið byggð miðað við að rafmagnsverð hækki og hverju það gæti skilað Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í vasann vegna eignarhalds hans og eiginkonu hans á jörð sem er á áhrifasvæði Búlandsvirkjunar og Hólmsárvirkjunar.
Í ummælum við færslu um fréttina á Facebook var Guðlaugi Þór meðal annars hótað lífláti vegna þess sem fram kom í henni og hefur verið gripið til sérstakra öryggisráðstafana vegna málsins. Hótunin er auk þess komin í farveg hjá embætti ríkislögreglustjóra.
Þá eru fréttir af framgöngu Miðflokksins, með jákvæðum formerkjum, mjög áberandi á vef Fréttatímans.