Mynd: Samsett fréttatíminn.jpg

Fréttatíminn: Tekjulaus miðill sem unnin er í sjálfboðavinnu huldumanna

Í byrjun síðasta árs keypti maður lén og Facebook-síðu úr þrotabúi Fréttatímans og endurskráði miðilinn hjá fjölmiðlanefnd. Síðan þá hafa birst á miðlinum fjöldinn allur af fréttum sem enginn er skrifaður fyrir. Ábyrgðarmaður miðilsins segir að hann hafi engar tekjur, sé unninn í sjálfboðavinnu og sé í raun „bara í gamni“. Hann vill ekki upplýsa um hverjir skrifi á vef Fréttatímans.

Fréttatíminn er, samkvæmt Facebook-síðu sinni, óháður miðill. Hann er líka fjölmiðill sem er unninn í sjálfboðavinnu án eiginlegra starfsmanna. Þar vinna hvorki ritstjóri né blaðamenn þrátt fyrir að um skráðan fjölmiðil sé að ræða. Eini kostnaðurinn sem fylgir rekstri miðilsins er árlegur kostnaður vegna endurnýjunar á léni hans. Tekjur Fréttatímans eru engar. 

Þetta segir Guðlaugur Hermannsson, eigandi miðilsins. Í samtali við Kjarnann staðfesti Guðlaugur að hann hefði keypt lén Fréttatímans og Facebook-síðu hans út úr þrotabúi Morgundags, fyrrverandi útgáfufélags þess, og síðan í upphafi árs 2018 hafi hann, í sameiningu við kollega, birt efni á vefnum. „Þetta er lítill fjölmiðill bara í gamni“.

Allt efni sem birtist á vef Fréttatímans er birt undir höfundinum „ritstjórn Fréttatímanns“. Guðlaugur vill ekki upplýsa hverjir skrifa það efni. Hann segir að vel hafi verið tekið í þetta framtak, sérstaklega að undanförnu í tengslum við umræður um þriðja orkupakkann. 

Aðspurður um hver bæri ábyrgð á miðlinum, í ljósi þess að enginn sé skráður höfundur frétta, sagði Guðlaugur að það væri hann sjálfur. 

Er sæbjúgnaútflytjandi

Fréttatíminn er rekinn af félagi sem heitir G. Hermannsson ehf., félagið sem hefur þann skilgreinda tilgang samkvæmt skráningu að stunda heildverslun með fisk og fiskafurðir.  G. Hermannsson hét áður Select Seafood og árið 2016 var engin starfsemi í félaginu. Árið 2017 var hún í lágmarki en tekjur þess á því ári námu 16,3 milljónum króna.

Í fyrra tók starfsemi G. Hermannssonar ehf. hins vegar kipp og tekjur þess margfölduðust. Á árinu 2108 námu þær 475,5 milljónum króna og félagið skilaði smávægilegum hagnaði á rekstri sínum. Í ársreikningi G. Hermannssonar ehf. kemur fram að félagið hafi selt „fiskafurðir til erlendra kaupenda á síðari hluta ársins 2017 og allt árið 2018. Umfangið jókst mikið árið 2018 og gekk reksturinn samkvæmt áætlun.“

Engin sundurliðun er gerð á þeirri starfsemi sem G. Hermannsson ehf. stundaði á árinu 2018 í ársreikningnum. Guðlaugur segir í samtali við Kjarnann að G. Hermannsson sé stærsti útflytjandi á sæbjúgum á Íslandi og að tekjuaukning félagsins sé vegna þeirrar starfsemi. Engin kostnaður né tekjur sé af rekstri Fréttatímans. Eina auglýsingin sem birtist á vef miðilsins er frá fyrirtækinu Glæsigeymslur.is. 

Þarf ekki að aðgreina rekstur fjölmiðils frá öðru

Kjarninn hafði samband við fjölmiðlanefnd, en allir fjölmiðlar landsins þurfa samkvæmt lögum að vera skráðir hjá stofnuninni, og leitaði svara við því hvort að fjölmiðlar mættu reka sig í félagi með blandaðan rekstur. Hvort til að mynda fisksala og fjölmiðlarekstur gæti farið saman í félagi með sömu kennitölu án þess að fjölmiðlanefnd kallaði sérstaklega eftir rekstarupplýsingum um fjölmiðlahlutann. Þar var bent á að samkvæmt fjölmiðlalögum séu sérstakar skyldur lagðar á leyfiskylda fjölmiðla í þessum efnum. í 19. grein þeirra laga segir: „Rekstri, bókhaldi og fjárreiðum vegna hinnar leyfisskyldu starfsemi skal haldið aðgreindum frá öðrum rekstri og fjárreiðum leyfishafa. Fjölmiðlanefnd getur krafist upplýsinga úr bókhaldi og reikningum leyfishafa, ef þess er talin þörf, um hvort laga- eða reglugerðarákvæði eða leyfisskilmálar hafi verið brotnir.“

Leyfisskyldir miðlar eru hins vegar einungis þeir sem miðla hljóð og myndmáli og þurfa að sækja um leyfi til útsendinga. Sú skilgreining nær því bara til sjónvarps- og útvarpsmiðla. Prent- og netmiðlar eru ekki leyfisskyldir, heldur einungis skráningarskyldir. Slíkir miðlar þurfa ekki að aðgreina rekstur sinn sérstaklega. Því er ekkert ólöglegt við það að rekstrarfélag Fréttatímans sýni ekki hverjar tekjur,  gjöld eða lánveitingar þess séu vegna fjölmiðlastarfsemi. 

Fjölmiðlanefnd óskar árlega eftir skýrslugjöf fjölmiðla þar sem meðal annars er farið er fram á að allir skráðir fjölmiðlar upplýsi stofnunina um fjölmiðlarekstur sinn og hvers eðlis tekjur þeirra séu. Ekki er opinbert hversu stórt hlutfall skráðra fjölmiðla skilar þessari skýrslu en fyrir liggur að mikill minnihluti fjölmiðla hefur gert það undanfarin ár. Stjórnvaldssektum hefur ekki verið beitt gagnvart þeim sem ekki skila inn skýrslunni. 

Var umsvifamikill fjölmiðill

Fréttatíminn var upphaflega stofnaður sem íslenskt fréttablað sem kom út einu sinni í viku og var dreift frítt á föstudögum í 82 þúsund eintökum. Fyrsta eintak blaðsins kom út 1. október 2010. 

Í lok nóvember 2015 keypti hópur fjárfesta undir stjórn Gunnars Smára Egilssonar blaðið. Aðrir fjárfestar voru Árni Hauksson, Hallbjörn Karlsson og Sigurður Gísli Pálmason. Árni og Hallbjörn eru á meðal eigenda Kjarnans í dag eftir að hafa keypt 4,67 prósent hlut í honum í sumar. 

Gunnar Smári Egilsson, landskunnur fjölmiðlamaður, leiddi hóp sem keypti Fréttatímann 2015. Hann hvarf frá miðlinum snemma árs 2017 og tengist þeirri útgáfu hans sem nú er í loftinu ekki á nokkurn hátt.
Mynd: Bára Huld Beck

Útgáfutíðni blaðsins var aukin og margt reynslumikið starfsfólk ráðið. Reksturinn gekk hins vegar illa og í febrúar 2017 var greint var frá því að fjárhagsleg endurskipulagning á fríblaðinu Fréttatímanum stæði yfir. 

Í byrjun apríl var ljóst að það stefndi í óefni. Gunnar Smári tilkynnti þá að hann væri hættur afskiptum af útgáfunni. Starfsmenn höfðu á þessum tíma ekki fengið greidd laun og erfiðlega gekk að fá nokkrar upplýsingar frá stjórnendum um hvort að slíkt stæði til. 

Fréttatíminn kom út í síðasta sinn föstudaginn 7. apríl 2017. Skömmu áður hafði verið greint frá því að blaðið hefði tapað 151 milljónum króna á árinu 2016. Tapið hafði tífaldast milli ára. 

Útgáfufélag Fréttatímans var tekið til gjaldþrotaskipta í júlí og kröfur í búið námu 236 milljónum króna.

Keypti úr þrotabúi

Í janúar 2018 fór vefur Fréttatímans skyndilega aftur í loftið.

Þann 11. janúar 2018 var Fréttatíminn.is skráður sem fjölmiðill hjá fjölmiðlanefnd. G. Hermannsson ehf., sem er skráður eigandi hans, hafði eignast lénið www.frettatiminn.is og Facebook-síðu miðilsins, sem hefur 23.802 fylgjendur. Því er ljóst að sá sem stýrir miðlinum getur náð til að miðla efni sínu mjög víða um íslenskt stafrænt samfélag. 

Í skráningu á vef fjölmiðlanefnd segir að ritstjórnarstefna Fréttatímans sé „almennar fréttir og afþreyingarefni, eins og tíðkast hjá öðrum vefmiðlum á internetinu.“ 

Ekkert annað kemur fram utan þess að Guðlaugur Hermannsson sé fyrirsvars- og ábyrgðarmaður. Hann segist sjálfur bera ábyrgð á efninu sem birtist á vefnum en að vefnum sé haldið úti í samstarfi við kollega. Guðlaugur vill ekki gefa upp hver eða hverjir það séu. 

„Ritstjórn Fréttatímanns“

Síðan að hinn nýi Fréttatími fór í loftið hafa verið birt mörg efni þar daglega, nú í á annað ár. Margt sem þar birtist er unnið með hætti sem stenst illa grundvallarreglur blaðamennsku, t.d. hvað varðar heimildaröflun og framsetningu. Auk þess er enginn blaðamaður skráður á vefnum og allt efni sem þar birtist skráð sem skrifað af „Ritstjórn Fréttatímanns“. 

Það efni sem Fréttatíminn birtir er margskonar. Margt af því er unnið upp úr fréttatilkynningum sem sent er á alla íslenska miðla daglega. Sumt snýst um veðurfar. En það efni sem tekur mest pláss, og vekur mesta athygli, snýst um stjórnmál samtímans og er oft sett fram sem opnar spurningar í tengslum við mál sem eru ofarlega á baugi á hverjum tíma. 

Guðlaugur segir að það hafi verið tekið vel í umfjöllun Fréttatímans frá því að hann hóf að birta efni í byrjun árs í fyrra. Það eigi sérstaklega við í tengslum við umræður um þriðja orkupakkann. Þar hefur miðillinn enda farið mikinn. 

Ráðherra hótað lífláti

Síðustu daga hafa efni Fréttatímans verið mjög áberandi. Mesta athygli hafa vakið fréttir sem tengjast þriðja orkupakkanum eða stjórnmálamönnum sem hafa tekið virkan þátt í umræðum um hann. Þannig birtist frétt á fimmtudag undir fyrirsögninni: „Skilar orkupakki 3, 625 milljónum í vasa utanríkisráðherra?“ Efnislega snýst fréttinn um að uppreikna mögulegar tekjur af virkjun sem hefur ekki verið byggð miðað við að rafmagnsverð hækki og hverju það gæti skilað Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í vasann vegna eignarhalds hans og eiginkonu hans á jörð sem er á áhrifasvæði Búlandsvirkjunar og Hólmsárvirkjunar. 

Guðlaugur hafði áður svarað opinberlega fyrir slíkar ávirðingar, í apríl 2019, þegar þær voru settar fram á Eyjunni, og þá greint frá því að þetta væri skógræktarjörð sem hann og eiginkona hans hefðu keypt af tengdaforeldrum hans, en þau hefðu átt hana frá 1982. „Hvorki ég né fjöl­skylda mín eigum nokkra aðild að áformum um þá virkj­un. Ef svo ólík­lega færi að hún yrði að veru­leika yrðu áhrifin á Tungufljót og umhverfi þess afar nei­kvæð. Von­andi eru allar hug­myndir um þessa virkjun út af borð­inu um alla fram­tíð. Um það erum við fjöl­skyldan öll sammála[...]Dylgjur sem fram koma í ofan­greindri umfjöllun Eyj­unnar bera vitni um mál­efna­fá­tækt þeirra sem hafa ákveðið að berj­ast gegn þriðja orku­pakk­anum með öðru en rök­um. Von­andi verður hægt að ræða þetta mál með mál­efna­legri hætti í fram­tíð­inni.“

Í ummælum við færslu um fréttina á Facebook var Guðlaugi Þór meðal annars hótað lífláti vegna þess sem fram kom í henni og hefur verið gripið til sérstakra öryggisráðstafana vegna málsins. Hótunin er auk þess komin í farveg hjá embætti ríkislögreglustjóra. 

Guðlaugur Hermannsson segir að hann eða Fréttatíminn geti ekki borið ábyrgð á ummælum sem fólk lætur falla um fréttir Fréttatímans á Facebook. 

Hér er orkupakkinn, um orkupakkann...

Annað dæmi er frétt með fyrirsögninni: „Sæstrengsverkefni milli Íslands og Bretlands er tilbúið og fullfjármagnað – Allt klappað og klárt“. Henni hefur verið dreift aftur og aftur á Facebook-síðu Fréttatímans. 

Í raun er ekki um frétt að ræða heldur einhverskonar pistil eftir Arnhildi Ásdísi Kolbeins, sem titluð er fjármálastjóri og lögfræðinemi. Arnhildur var á lista Miðflokksins í Hafnarfirði í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Pistillinn byggir á ályktunum vegna verkefnisins Atlantic Superconnection sem margir hverjar hafa verið ítarlega hraktar opinberlega í fjölmiðlum, meðal annars af forsvarsmönnum Atlantic Superconnection og íslenskum ráðamönnum. 

Í gær birtist frétt þar sem fyrirsögn var enn og aftur í spurningarformi: „Er forseti vanhæfur?“. Í umfjölluninni er því haldið fram að frétt Fréttatímans um Guðlaug Þór, sem hann fékk lífslátshótun í kjölfarið á, væri rétt og að „hver fylgdarsveinn ráðherra hefur síðan sprottið fram og hrópað úlfur úlfur og borið fyrir sig að um rangfærslur sé að ræða í fréttinni.“ Í kjölfarið er lagt upp frá því að Fréttablaðið hafi tekið þátt í „klúðurslegri vörn“ fyrir utanríkisráðherrann, en einn eiganda þess er fjárfestirinn Helgi Magnússon. 

Þar sem Helgi hefði gefið samtals 800 þúsund krónur til framboðs Guðna Th. Jóhannessonar í gegnum annars vegar félag sitt og hins vegar í eigin nafni, þá gæti forsetinn verið vanhæfur til að skrifa undir lög sem tengjast innleiðingu þriðja orkupakkans. 

Fréttin er þéttsetin af rangfærslum og hálfsannleik, meðal annars um hverjir eigendur félaga eru sem gáfu til framboðs Guðna. Þar er Ásgeir Margeirsson, fráfarandi forstjóri HS Orku, meðal annars kallaður viðskiptafélagi eiginkonu Guðlaugs Þórs, sem á hlut í Bláa lóninu. HS Orka á ekki hlut í Bláa lóninu og Ásgeir á heldur ekki hlut í HS Orku. Alls námu fjárframlög til framboðs Guðna Th. 25 milljónum króna og framlög Helga, sem eru í samræmi við lög um hámark framlaga til framboða og greint var frá opinberlega ásamt öllum framlögum yfir 200 þúsund krónum, því um þrjú prósent af heildarframlögum til framboðsins.

Miðflokkurinn áberandi

Þá eru fréttir af framgöngu Miðflokksins, með jákvæðum formerkjum, mjög áberandi á vef Fréttatímans. Á síðastliðinni rúmri viku hefur vefurinn meðal annars endurbirt aðsenda grein eftir Gunnar Braga Sveinsson, varaformann Miðflokksins, sem birtist fyrst í Morgunblaðinu og bar heitið „Að gyrða sig í brók sjálfstæðismenn“, og birt fréttir af fundum sem Miðflokkurinn hélt um þriðja Orkupakkann annars vegar í Keflavík og hins vegar á Selfossi þar sem áhersla var lögð á hversu fjölmennir fundirnir hefðu verið.

Þá var birt frétt með fyrirsögninni: „Miðflokkurinn leiðréttir ósannindi forsætis- og utanríkisráðherra“ þar sem fullyrt er að að forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafi sagt ósatt í ræðum sínum í umræðum um þriðja orkupakkann. Í þeirri frétt sagði meðal annars að myndavélar sem taka upp þingræður, sem streymt er beint á netinu, taki „því miður“ ekki myndir af salnum þar sem þingmenn sitji. Þar hefði mátt „sjá fliss og grettur fylgjenda þriðja orku pakkanns“ þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hélt 46. ræðu sína um orkupakkann. Sú setning gefur til kynna að höfundur fréttarinnar hafi verið staddur í þingsal en ekki verið að horfa á ræðurnar í gegnum streymi Alþingis. 

Loks var birt frétt um „ágætis viðtal“ við Sigmund Davíð á Sky sjónvarpsstöðinni í vikunni sem leiddi svo inn í skrif Sigmundar Davíðs um þriðja orkupakkann.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar