Reiðhjól í reiðuleysi

Danir eru hjólreiðaþjóð, og Dönum sem hjóla fjölgar stöðugt. Á Kaupmannahafnarsvæðinu búa rúmlegar tvær milljónir og talið er að reiðhjólin séu um það bil helmingi fleiri. Þau eru þó ekki öll í vörslu eigendanna.

Hjól í Berlín
Auglýsing

Danir fullyrða iðulega að þeir séu mesta hjólreiðaþjóð í heimi og segja Kaupmannahöfn höfuðborg hjólreiðanna. Enginn dómur skal hér lagður á þessar fullyrðingar en víst er að járnhesturinn, eins og Danir kalla reiðhjólið gjarna er mikilvægt samgöngutæki í borginni við sundið. Um það bil helmingur borgarbúa hjólar til daglegra starfa. Hjólin eru af öllum gerðum, gömul og ný, sum gljáfægð en önnur hálfgerðar ryðhrúgur þar sem ískrar í keðjunni þegar stigið er. Allir hjóla: kennarar og kontóristar, bakarar og bryggjuverðir, fréttamenn og fánastangasmiðir, lögfræðingar og laganna verðir, skraddarar og skúringafólk, ráðherrar og rithöfundar, hefðarfrúr og hundatemjarar o.s.frv.

Margir láta sér ekki nægja eitt hjól, eiga kannski eitt „hversdagshjól“ og svo annað sem notað er í lengri hjólaferðir. Enginn veit með vissu hve mörg reiðhjól fyrirfinnast á ,,stór Kaupmannahafnarsvæðinu“ en talið er að þau séu næstum helmingi fleiri en íbúarnir sem eru rúmlega tvær milljónir.

Mörgum hjólum stolið

Fyrir skömmu var birt árleg greinargerð Kaupmannahafnarborgar um hjólreiðar í borginni. Þar er að finna tölur um flest það sem viðkemur hjólreiðum: lengd nýrra hjólastíga, heildarlengd slíkra stíga í borginni, fjölda þeirra borgarbúa sem hjóla, breytingar frá fyrra ári o.s.frv. Sem sé sægur upplýsinga um allt sem viðkemur þessum samgöngumáta.

Auglýsing

Danska lögreglan fær daglega rúmlega tvö hundruð tilkynningar um stolin reiðhjól, langflest í Kaupmannahöfn. Lögreglan telur að hún fái þó ekki tilkynningar um nándar nærri öll hjól sem stolið er og árlega séu að minnsta kosti 100 þúsund hjól tekin ófrjálsri hendi. Þeir sem hafa eignast hjól sitt með löglegum hætti og fengið það skráð, og keypt tryggingu, fá hjólið bætt. Dönsku tryggingafélögin greiða árlega út jafngildi um það bil sex milljarða íslenskra króna vegna þessa. Mjög fáa reiðhjólaþjófnaði tekst að upplýsa og dómar vegna slíkra þjófnaða einungis örfáir á hverju ári.

Hverjir stela reiðhjólum?

Lögreglan segir að skipta megi reiðhjólaþjófum í fjóra flokka. Fyrst eru það þeir sem nappa hjóli til að vera fljótari á áfangastað og skilja svo hjólið eftir þegar þangað er komið. Þetta er allnokkur hópur. Svo eru það þeir sem stela hjóli og slá eign sinni á það. Kannski af því að þeirra eigin hjóli hefur verið stolið. Í þriðja flokknum eru þeir sem stela hjólum, kannski eftir pöntunum, og selja svo áfram. Þetta er ekki stór hópur en lögreglan segir að „veltan“ hjá þeim sem stundi þessa iðju sé umtalsverð. Í fjórða hópnum eru þeir sem lögreglan kallar „næturvinnumenn“. Gjarna útlendingar sem fara um að næturlagi, á sendiferðabíl, sem þeir fylla af reiðhjólum og bruna svo úr landi og selja góssið utan Danmerkur. Lögreglan segir að þessum „næturvinnumönnum“ hafi fjölgað mikið á allra síðustu árum og svo virðist sem víða í Evrópu sé auðvelt að selja stolin reiðhjól.

Þúsundir hjóla í reiðuleysi

Í áðurnefndri greinargerð Kaupmannahafnarborgar kemur fram að í dag séu að minnsta kosti 32 þúsund reiðhjól sem hafi verið yfirgefin, eins og lögreglan orðar það. Ástandið er verst við lestarstöðvarnar, þar eru þúsundir reiðhjóla sem enginn virðsti eiga. Þetta segir starfsfólk borgarinnar bagalegt því mikill skortur er á hjólastæðum við stöðvarnar, og reyndar eru nánast öll hjólastæði, á almannafæri, í borginni yfirfull alla daga. Sömu sögu er að segja um reiðhjólastæði við fjölbýlishús og verslanamiðstöðvar, allt yfirfullt.

Starfsfólk borgarinnar fjarlægir árlega um það bil 15 þúsund reiðhjól sem skilin hafa verið eftir á gangstéttum og stígum, í almenningsgörðum og víðar. Þetta hrekkur þó ekki til og í greinargerð borgarinnar kemur fram að æskilegt væri að fjölga starfsfólki sem vinnur við að fjarlægja reiðhjólin sem enginn virðist eiga eða kæra sig um. En fylgja þarf ákveðnum reglum í þessum efnum.

Hjól eru mikið notuð víða í Evrópu. Mynd: Bára Huld Beck

Hvað verður um reiðhjólafjallið?

Eins og áður sagði er það starfsfólk borgarinnar sem sér um að fjarlægja hjól sem hafa verið skilin eftir á almannafæri. Rekstrarfélögum fjölbýlishúsa ber að sjá um slíka hluti á sínu svæði. Höfundur þessa pistils bjó um árabil í nýlegu fjölbýlishúsi í Kaupmannahöfn. Þarna eru um það bil 300 íbúðir, í eins konar ferhyrningi utan um garð. Í garðinum eru reiðhjólastæði. Árlega voru yfirgefin hjól í tugatali fjarlægð úr garðinum, og þannig er það sjálfsagt enn. Fyrst þarf að setja sérstakt merki eða borða á hvert einasta hjól. Þar er tiltekinn frestur, og jafnframt tilkynnt að hjól sem verði enn með borðanum þegar fresturinn er úti verði fjarlægð. Þegar sá dagur kemur er hjólunum safnað á einn stað og svo beðið eftir lögreglunni, það getur tekið nokkurn tíma, allt upp í mánuð. Lögreglan metur svo hvert einasta hjól og sé það talið minna en 500 króna virði (9 þúsund íslenskar) fer hjólið í endurvinnslu. Sé um verðmætara hjól að ræða þarf að geyma það tiltekinn tíma áður en það endar á uppboði. Þetta fyrirkomulag, sem þarna er lýst er almennt fylgt, enda bundið í reglugerðum.

Undanfarið hefur Kaupmannahafnarborg, með auglýsingum, hvatt íbúana til að koma hjólum, sem þeir ekki ætli sér að eiga lengur, í endurnýtingu. Til dæmis til góðgerðasamtaka og verkstæða sem gera við notuð hjól og selja. Þannig öðlist notuð hjól nýtt líf.

Samtök danskra hjólreiðamanna segja núverandi fyrirkomulag varðandi yfirgefnu hjólin bæði flókið og seinvirkt, brýnt sé að einfalda regluverkið. Sífellt sé verið að hvetja borgarana til að nota hjólhestinn en þá þurfi að búa svo um að allsstaðar sé hægt að „leggja“ löglega. Í dag skorti mikið á að svo sé í höfuðborginni.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Einkabílaeign á Ísland er hlutfallslega sú hæsta í Evrópu.
Getur Ísland keyrt sig út úr loftslagsvandanum?
Orkuskipti í samgöngum er eitt helsta framlag íslenskra stjórnvalda í baráttunni við loftslagshamfarir. Rafbílar eru hins vegar ekki sú töfralausn sem oft er haldið fram. Vandamálið er ekki bensíndrifnir bílar heldur bíladrifin menning.
Kjarninn 24. júlí 2021
Daði Már Kristófersson
Gölluð greinargerð um fyrningu aflaheimilda
Kjarninn 24. júlí 2021
Nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar hafa sem sakir standa ekki kost á því að starfa á einkareknum stofum innan greiðsluþátttökukerfis hins opinbera fyrr en eftir tveggja ára starf í greininni.
Nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar byrja að veita þjónustu án greiðsluþátttöku ríkisins
Á nokkrum sjúkraþjálfarastofum er nú hægt að bóka þjónustu nýútskrifaðra sjúkraþjálfara, en þá þarf að greiða fullt verð fyrir tímann, vegna ákvæðis í reglugerð heilbrigðisráðherra. Tveir eigendur stofa segja þetta ekki gott fyrir skjólstæðinga.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ríkisstjórnin fundaði á Egilsstöðum í dag. Mynd úr safni.
200 manna samkomutakmarkanir til 13. ágúst
Í mesta lagi 200 manns mega koma saman frá miðnætti á morgun og þar til 13. ágúst og eins metra regla verður í gildi. Barir og veitingahús þurfa að loka á miðnætti.
Kjarninn 23. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar