Þinglýstir kaupsamningar um fasteignir á höfuðborgarsvæðinu voru 525 í ágúst. Það eru 33 prósent færri kaupsamningar en í sama mánuði árið áður. Þá dróst fasteignaveltan saman á milli ára um 27,8 prósent. Veltan í ágúst var 27,4 milljarðar króna og hefur hún ekki verið minni síðan í desember á síðasta ári. Þetta kemur fram í tölum Þjóðskrár.
Dregur verulega úr kaupsamningum
Fjöldi kaupsamninga dróst saman í sérbýlum, fjölbýlum og öðrum eignum en íbúðarhúsnæði í ágúst samanborið við sama mánuð í fyrra. Fjöldi kaupsamninga í fjölbýlum dróst saman um 32 prósent milli ára í ágúst og voru alls 412 . Kaupsamningar í sérbýli drógust einnig saman á milli mánaða, voru 96 í ágúst í ár en 124 í fyrra.
Meðalupphæð á hvern kaupsamning var 52,1 milljón í ágúst síðastliðnum en vert er að taka fram að hver kaupsamningur getur verið um fleira en eina eign, auk þess sem eignir eru misstórar og misgamlar.
Heildarvelta kaupsamninga í ágúst var 27,4 milljarðar króna, viðskipti með eignir í fjölbýli námu 19,2 milljörðum og viðskipti með sérbýli 7,5 milljörðum.
Kaupsamningum fækkaði einnig milli mánaða eða um 17,7 miðað við júlí mánuð, og velta minnkaði um 16,7 prósent.
Meðalsölutíma fasteigna nú tæpir þrír mánuðir
Í nýjustu Peningamálum Seðlabanka Íslands kemur fram að umsvif á fasteignamarkaði hafi dregist nokkuð saman að undanförnu. Fasteignaverð hækkaði um 2,9 prósent að nafnvirði á ársgrundvelli, samkvæmt tölum í júlímánuði, sem þýðir að fasteignaverð hefur lækkað á undanförnu ári, að teknu tilliti til verðbólgunnar, sem er nú 3,2 prósent.
Þá hefur meðalsölutími fasteigna lengst nokkuð að undanförnu og er nú 2,8 mánuðir, að því er fram kemur í peningamálum.