Stórnotendur og almenningur notaði minna af raforku í fyrra en raforkuspá Orkustofnunar frá 2015 gerði ráð fyrir. Mest munar þar um verksmiðju United Silicon sem ekki var í rekstri 2018. Alls var raforkuvinnsla á landinu 19.830 GWh sem er 283 GWH minni en spáin var. Auk þess voru flutningstöp hlutfallslega minni en gert var ráð fyrir árið 2015 sem og heildarálag á kerfið.
Þetta kemur fram í nýrri raforkuspá fyrir árin 2019 til 2050 sem unnin er af orkuspárnefnd Orkustofnunar. Nefndin hefur nú endurreiknað raforkuspánna frá 2015 út frá nýjum gögnum og breyttum forsendum.
Frávik vegna breyttrar raforkunotkunar gagnavers Advania
Stórnotendur notuðu minna af raforku í fyrra en gert var ráð fyrir í raforkuspá 2015. Notkun stórnotenda var 15.260 GWh sem 129 GWh minna en spáin gerði ráð fyrir. Þar munaði mest um verksmiðju United Silicon sem ekki var í rekstri 2018 en orkunotkun verksmiðjunnar og PCC Bakka var 534 GWh minni en gert var ráð fyrir í spánni.
Í skýrslu nefndarinnar segir að auk þess hafi það haft áhrif að gagnaver Advania fór úr því að vera almennur notandi orku yfir í stórnotenda. Ef sú breyting hefði ekki komið til þá hefði frávik spárinnar um notkun stórnotenda verið mun meira eða um 558 GWh.
Afhending frá dreifikerfinu, sem eru almennir notendur, var um 160 GWh minni en 2015 spáin gerði ráð fyrir. Ef ekki hefði komið til tilflutningur gagnavers Advania frá dreifikerfinu yfir í flutningskerfið hefði almenn notkunin verið rúmlega 270 GWh meiri en 2015 spáin gerði ráð fyrir.
Notkun gagnavera meiri en spáð var
Nokkur uppbygging gagnavera hefur átt sér stað hér á landi á undanförnum árum og eru fjögur þeirra nú það stór að þau teljast sem stórnotendur. Því hefur notkun gagnavera á orku aukist verulega frá 2015 spánni. Sú notkun er að stærstum hluta tekin frá flutningskerfinu, sem er aðeins fyrir stórnotendur, en hún var alls 500 GWh meiri í fyrra en raforkuspáin gerði ráð fyrir.
Á árinu 2022 er gert ráð fyrir að þrjú gagnaver tengd flutningskerfinu noti um 1.200 GWh í orku og 140 MW í afli. Síðan eru önnur gagnaver sem fá orku frá dreifikerfinu. Vitað er um slíka notkun sem er að koma inn á kerfið á Suðurnesjum og var tekið tillit til þeirrar aukningar í spánni.
Orkuskipti í samgöngum gengið hraðar fyrir sig
Nýja raforkuspáin fjallar um raforkunotkun hér á landi fram til ársins 2050 en spáin byggir meðal annars á forsendum um mannfjölda, fjölda heimila, landsframleiðslu og framleiðslu einstakra atvinnugreina. Nokkrar breytingar eru á nýju raforkuspánni en þar hefur ný mannfjöldaspá frá 2018 veruleg áhrif.
Á árunum 2019 til 2038 er aukning í fólksfjölda meiri en í spánni frá 2015. Frá árinu 2029 til 2050 á fólksfjöldinn hins vegar að vera minni en spáð var og síðan mestur í lok tímabilsins. Aukinn fólksfjöldi kallar á aukna raforkunotkun sérstaklega á heimilum og í þjónustu en áhrifin eru öfug við minni fólksfjölda.
Jafnframt hafa orkuskipti í samgöngum gengið heldur hraðar fyrir sig að undanförnu en gert var ráð fyrir í raforkuspánni 2015. Því er reiknað með aukinni raforkunotkun heimila vegna rafmagnsbíla á tímabilinu 2020 til 2030. Í nýju spánni er gert ráð fyrir aukningu um 130 GWH við lok spátímabilsins en raforkunotkun í samgöngum verður alls rúm 1 TWh árið 2050
Á árunum 2021 til 2030 er spáð aukning í dreifikerfinu (almennir notendur) á bilinu 2,0 til 2,8 prósent, sem stafar að hluta til að orkuskiptum í samgöngum. Þegar til lengri tíma er litið er búist við að notkunin aukist minna og verði um 2 prósent á ári fram til ársins 2040 og aukning minnki síðan og verði 1,1 prósent í lok spátímabils.
Lesa má skýrsluna í heild sinni hér.