Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir nýrri heimild til að breyta láni ríkissjóðs til Vaðlaheiðarganga í hlutafé. Þar er einnig gert ráð fyrir nýrri heimild fjármála- og efnahagsráðuneytisins til að selja 17,8 prósent eignarhlut ríkisins í Endurvinnslunni hf.
Hvorug þessara heimilda var til staðar á fjárlögum yfirstandandi árs.
Geta breytt milljarðaskuldum í hlutafé
Vaðlaheiðargöng átti að vera einkaframkvæmd, enda var framkvæmdin ekki ofarlega á samgönguáætlun og ólíklegt að hún myndi verða að veruleika í nánustu framtíð ef beðið yrði eftir því að hið opinbera myndi ráðast í hana. Það var hins vegar samþykkt árið 2012 að ríkið myndi lána 8,7 milljarða króna í framkvæmdina en veggjöld sem yrðu rukkuð áttu að sjá til þess að þeir fjármunir myndu skila sér til baka.
Vaðlaheiðargöng voru opnuð í janúar síðastliðnum. Í júlí greindi DV frá því að rekstur gangana hefði valdið vonbrigðum og að tekjur væru umtalsvert undir áætlun. Rekstrarfélag gangana hefði áætlað að um 90 pósent af umferð um svæðið myndi fara í gegnum göngin en raunin hafi verið um 70 prósent. Aðrir keyrðu áfram um Víkurskarð, sem lengir leiðina til Húsavíkur um nokkrar mínútur, en göngin stytta leiðina milli Akureyri og Húsavíkur um alls 16 kílómetra. Afleiðingin var sú að tekjur sumarsins voru 35-40 prósent minni en áætlað var.
Íslenska ríkið á sem stendur 34 prósent í rekstrarfélagi Vaðlaheiðarganga. Skuldir félagsins námu samtals 16,6 milljörðum króna um síðustu áramót.
Heimild til að selja hlut í Endurvinnslunni
Ríkissjóður á 17,8 prósent hlut í Endurvinnslunni en auk þess á ÁTVR, sem er í ríkiseigu, 20 prósent hlut í fyrirtækinu. Það var stofnað árið 1989 á grundvelli náttúru- og umhverfisverndarsjónarmiða og sér um móttöku, ásamt umboðsmönnum sínum, allra einnota drykkjarvöruumbúða hérlendis, greiðir út skilagjald þeirra, undirbýr þær til útflutnings og selur til endurvinnslu. 58 starfstöðvar starfa fyrir félagið um allt land.
Endurvinnslan velti 990 milljónum króna í fyrra og skilaði 196 milljón króna hagnaði. Árið áður var hagnaðurinn 154 milljónir króna. Fyrirtækið á eignir sem metnar eru á rúmlega 1,8 milljarð króna en er með nær engar langtímaskuldir.
Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að til greina komi að ÁTVR kaupi hlut ríkisins.