Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020 er lagt til að gengið verði til samninga við Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Isavia ohf. um skipulag og þróun lands í nágrenni Keflavíkurflugvallar. „Jafnframt að ganga til samninga við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ohf. um umsjón og fjármögnum verkefnisins og um fyrirkomulag og ráðstöfun á lóðum og landi í eigu ríkisins.“
Þróunarfélagið, sem heitir Kadeco, mun því fá aukið hlutverk við ráðstöfun á lóðum og landi í eigu ríkisins á svæðinu við og í kringum Keflavíkurflugvöll.
Það er umtalsverður viðsnúningur frá fyrri áformum um félagið, en til stóð að leggja það niður fyrir tveimur árum síðan.
Upprunalega hlutverkinu lokið
Kjarninn greindi frá því í lok júní 2017 að til stæði að leggja starfsemi Kadeco niður í þeirri mynd sem það hafði starfað. Skipt hafði verið um stjórn í félaginu mánuði áður og tekin hafði verið ákvörðun um að upprunalegu hlutverki þess, að selja fasteignir á Ásbrú, væri lokið. Vilji væri þó að taka upp viðræður við heimamenn um hvernig væri hægt endurskoða starfsemina með það í huga.
Sumarið 2018 var hins vegar skipaður nýr stjórnarformaður yfir Kadeco, Ísak Ernir Kristinsson. Hann var tilnefndur í starfið af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra. Ísak var 24 ára þegar hann tók við starfinu, starfaði sem flugþjónn hjá WOW air og stundaði háskólanám í viðskiptafræði. Hann hafði auk þess verið virkur í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins um árabil og gegnt trúnaðarstörfum í unglingahreyfingu flokksins. Ísak sagðist í samtali við RÚV skilja gagnrýni á að svo ungur maður væri orðinn stjórnarformaður í mikilvægu fyrirtæki en laun stjórnarformanns á mánuði eru 270 þúsund krónur.
Ljóst var á þessum tíma að hugmyndir um framtíð Kadeco væru að breytast. Engin áform voru lengur til staðar um að hætta starfsemi heldur væri framundan skoðun á hlutverki „félagsins við áframhaldandi þróun á landi ríkisins í kringum Keflavíkurflugvöll þar sem meðal annars verður horft til samstarfs Kadeco við sveitarfélög og aðra lykilaðila á svæðinu.“
Unnið eftir Aerotropolis hugmyndafræði
Þann 26. júní síðastliðinn var svo skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Undir hana skrifuðu Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ásamt fulltrúum Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar. Í fréttatilkynningu sem Marta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kadeco, sendi frá sér af þessu tilefni kom fram að frá stofnun hafi Kadeco unnið markvisst að því að laða að erlenda fjárfestingu og alþjóðleg fyrirtæki á svæðið sem félagið fer með.