„Ég get ekki séð að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins getum stutt stjórnarsamstarf sem fer fram með þessum hætti. Það er best að gera grein fyrir því strax.“ Þetta segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Tilefni greinarskrifa Jóns eru friðlýsingar Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, á grundvelli laga um rammaáætlun. Jón telur þá aðferðarfræði sem Guðmundur Ingi beiti þar standist enga skoðun og að margir hagsmunaaðilar hafi fullyrt að ekki sé farið að lögum í þeirri útfærslu sem ráðherrann boði. „Ég er sammála því að verklag hans samræmist ekki lögunum. Í því sambandi má nefna að dettur einhverjum það í hug að Alþingi hafi framselt slíkt vald til eins manns, að hann geti að eigin geðþótta ákveðið friðlýsingamörk? Það er annarra að gera það og Alþingis að afgreiða samhliða rammaáætlun hverju sinni. Skýrt dæmi um hvernig aðferðafræði ráðherrans mun virka í raun er t.d. að ef engin virkjun væri í dag til staðar í Þjórsá og Alþingi hefði ákveðið að setja virkjunarkostinn Urriðafoss í verndarflokk myndi ráðherrann friða allt vatnasvæði Þjórsár frá jökli til ósa þannig að engin virkjun yrði reist við Þjórsá. Þetta er galin leið og gengur ekki upp.“
Síðan segir Jón að hann geti ekki séð hvernig þingmenn Sjálfstæðisflokks geti stutt stjórnarsamstarf sem fari fram með þessum hætti.
Vill næga ódýra orku fyrir fólk og fyrirtæki
Í grein Jóns er einnig fjallað um það sem hann kallar forystuleysi í orkumálum og það að hvorki hafi gengið né rekið, að hans mati, að koma málum í eðlilegan farveg þegar kemur að uppbyggingu dreifikerfis raforku og frekari orkuframleiðslu.
Jón kallar eftir kröftugri og málefnalegri umræðu um nýtingu og vernd þegar kemur að orkuauðlindum á Íslandi. „Sú óstjórn sem þróast hefur getur ekki lengur viðgengist. Ég var í hópi þeirra þingmanna sem tókust í hendur þegar lög um rammaáætlun voru samþykkt þverpólitískt. Ég spyr mig og eflaust fleiri, hvernig gat þessi leið, sem svo víðtæk sátt var um að fara, ratað í aðrar eins ógöngur og raun ber vitni? Mitt svar við því er einfaldlega að það fylgdi ekki hugur máli hjá mörgum sem þó tóku þátt í þessu með okkur.“